Niðurstöður jarðvegssýna

Nú hefur samantekt um niðurstöður jarðvegssýna verið uppfærð og sýnaniðurstöðum ársins 2021 bætt við. Hægt er að sjá samantektina í viðhangandi skjali neðst á síðunni. Gagnasafnið er nú komið í 2190 sýni sem öll eru tekin með 10 cm sýnatökudýpt. Þó er gagnasafnið fyrir sýrustigsmælingar stærra þar sem einstaka bændur óska eingöngu eftir mælingu á sýrustigi.

Erfitt er að gera samanburð á milli ára innan sama svæðis eða milli svæða því að breytileiki niðurstaðna getur verið vegna ótal ástæðna, t.d. vegna jarðvegsgerðar, staðsetningar svo sem fjarlægðar frá sjó, langtímaáhrifa veðurfars o.fl. Jarðvegssýni gefa þó mikilvægar upplýsingar um ástand jarðvegsins s.s. sýrustig og aðgengilegt magn helstu næringarefna. Með reglulegri sýnatöku af afmörkuðu svæði má fylgjast með því hvernig innihald jarðvegs breytist frá einum tíma til annars. Æskilegt er að taka jarðvegssýni í þessum tilgangi á 4-7 ára fresti.

Frá 2020, þegar fyrsta samantekin var gerð, er ánægjulegt að sjá að fleiri bændur eru farnir að taka jarðvegssýni líkt og myndin að neðan sýnir. Þar má sjá að fjöldi sýnaniðurstaðna á árunum 2014-2019 var frá 148-298 sýni á ári en þeim fjölgaði í 416-471 sýni árin 2020-2021. Endilega höldum þannig áfram að safna gögnum.

 

Þegar horft er til einstakra næringarefna má sjá fjölgun, frá fyrri samantekt, á punktum á Vesturlandi með mjög há gildi fyrir kalsíum. Ætla má að það sé vegna kölkunar á viðkomandi spildum. Enda fer það saman með hækkun  sýrustigs fyrir viðkomandi spildur. Það sýnir sig einnig í auknum mun á milli meðaltals og miðgildis á pH fyrir árið 2021 á Vesturlandi.

  

 Þegar horft er til sýrustigsmælinga fyrir 2021 má sjá að sýrustigsgildið er í sinni hefðbundnu sveiflu fyrir landið, þ.e.a.s. að pH gildin sveiflast frá um 5,3 að meðaltali upp í 5,5 og eru í hærri kantinum árið 2021. Myndir hér að neðan sýna meðalsýrustigsgildi eftir árum og landshlutum. Ekki er um sömu spildur að ræða milli ára og því ekki hægt að túlka þetta sem þróun á sýrustigi, sýnir kannski frekar hve mikill breytileikinn er innan landshlutanna.

 

Mælingar á næringarefnum settar í samhengi við rúmþyngd jarðvegs segja til um áætlað magn aðgengilegra næringarefna í efstu 10 cm jarðvegsins. Myndirnar sýna meðaltöl milli ára innan landshluta fyrir fosfór og kalí.

 

  

Tún koma misvel undan vetri og geta verið á því ýmsar skýringar. Víða liggur fyrir hvaða spildur þurfi að taka til endurræktar á næstunni. Það gæti verið ráð að panta fyrir haustið jarðvegssýnatöku úr þeim spildum sem þarfnast úrbóta. Mikilvægt er að mæla sýrustig jarðvegs til að meta þörf á kölkun og síðan í framhaldinu að meta árangur af kölkun með sýnatöku.

Hægt er að hafa samband við ráðunaut RML í síma 516-5000 ef óskað er eftir jarðvegssýnatöku og/eða túlkun jarðvegssýnaniðurstaðna þegar þær liggja fyrir.

 

Niðurstöður jarðvegssýna 2014-2021