Ellefu aðilar/bú tilnefnd sem ræktunarmaður árins 2017

Fagráð í hrossarækt hefur valið þau bú eða aðila sem tilnefndir eru til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, ræktunarmaður ársins. Valið stóð á milli 62 búa eða aðila sem náð höfðu athyglisverðum árangri á árinu. Til að afmarka val ræktunarbúa eru fyrst tilgreind öll hrossaræktarbú eða aðilar sem sýnt hafa fjögur eða fleiri hross í fullnaðardómi á árinu. Að auki verða minnst tvö að hafa náð aðaleinkunn 8,0 eða hærra. Aðaleinkunnir hrossanna eru þá leiðréttar fyrir aldri og kyni líkt og gert er við útreikning á kynbótamatinu. Þá er búum/aðilum raðað upp eftir fjölda sýndra hrossa og leiðréttum aðaleinkunnum. Afkvæmahross (fyrstu verðlaun fyrir stóðhesta og heiðursverðlaun fyrir hryssur og stóðhesta) sem hljóta viðurkenningu á árinu telja einnig til stiga. Í ár var þeirri aðferð breytt þannig að t.d. heiðursverðlaunahryssa bætir einu hrossi við fjölda sýndra hrossa og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig. Tilnefndir aðilar munu hljóta viðurkenningu á ráðstefnunni Hrossarækt 2017 sem haldin verður í Harðarbóli, félagsheimili hestamannafélagsins Harðar, laugardaginn 28. október næstkomandi. Ræktunarmaður/menn ársins verða svo verðlaunaðir á Uppskeruhátíð hestamanna sem haldin verður á Hilton Reykjavík Nordica um kvöldið.

Í stafrófsröð eru tilnefndir aðilar/bú:

  • Berg, Anna Dóra Markúsardóttir og Jón Bjarni Þorvarðarson
  • Daníel Jónsson og Hilmar Sæmundsson, Efsta-Seli
  • Garðshorn á Þelamörk, Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius
  • Hemla II, Lovísa H. Ragnarsdóttir og Vignir Siggeirsson
  • Ketilsstaðir/Syðri-Gegnishólar, Bergur Jónsson og Olil Amble
  • Prestsbær, Inga Jenssen og Ingar Jenssen
  • Rauðalækur, Eva Dyröy og Guðmundur Friðrik Björgvinsson
  • Skipaskagi, Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir
  • Torfunes, Baldvin Kr. Baldvinsson
  • Þúfur, Gísli Gíslason og Mette Mannseth
  • Varmalækur, Björn Sveinsson og Magnea K. Guðmundsdóttir

Fagráð í hrossarækt óskar tilnefndum búum/aðilum innilega til hamingju með frábæran árangur.

þk/okg