Ekki of seint að senda heysýni til efnagreininga

Samkvæmt heimasíðu Efnagreiningar ehf. er hægt að senda hey- og skítasýni fyrir 5. hvers mánaðar og vænta niðurstaðna fyrir 20. sama mánaðar. Það er því ekki of seint að senda heysýni núna og getur verið sniðugt að senda sýni á þessum tíma ef fóðrunin gengur ekki eins og skyldi.

Upplýsingar um gróffóðurforðann eru grundvöllur þess að bóndi hafi stjórn á aðstæðum og fóðri skepnur sínar eftir þörfum. Eins er gáfulegt fyrir þá hestamenn sem kaupa hey að fá upplýsingar um fóðrið því það er ennþá erfiðara að áætla næringargildi töðunnar ef maður hefur ekki komið að ræktun, hirðingu og verkun hennar. Einnig minnum við á að ráðunautar RML geta túlkað niðurstöður efnagreininganna og veitt ráðgjöf um fóðrun.

Það getur skipt miklu máli að þekkja efnainnihald búfjáráburðarins sem getur verið mjög breytilegt á milli búa. Hægt er að styðjast við niðurstöður slíkra mælinga í áburðaráætlanagerð í Jörð.is. Þó svo að nú þegar sé e.t.v. búið að leggja grunn að áburðaráætlun ætti að vera lítið mál að laga hana með tilliti til nýrra upplýsinga um efnainnihald þess búfjáráburðar sem borinn skal á í vor.

Sjá nánar: 

Efnagreining ehf

okg/bpb