Einstaklingsmerkingar hrossa

Samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár skulu öll hross vera örmerkt og ásetningsfolöld skal örmerkja við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Nú ætti því að vera búið að merkja öll ásetningsfolöld. Örmerkingamenn eru hvattir til að skila örmerkjablöðum inn sem allra fyrst eftir að þeir hafa örmerkt. Of mikið er um það að örmerkjablöð skili sér seint inn til skráningar. Lítið gagn er í óskráðu örmerki! Of mörg dæmi eru um það að ekki hafi tekist að hafa upp á eigendum hrossa í óskilum vegna þess að örmerkið sem í þeim finnst er hvergi skráð. Örmerkingamanni ber að skilja eftir afrit af örmerkjablaði hjá eiganda eða umsjónarmanni þess hross sem merkt er. Það er mjög mikilvægt að eigendur gangi eftir því að fá þessi afrit. Margir örmerkingamenn kvarta yfir því að þeir fái litlar og stundum engar upplýsingar um hrossin sem þeir eru beðnir um að örmerkja. Það gengur ekki, áður en hross er örmerkt verða að liggja fyrir upplýsingar um þau. Nú mega dýralæknar ekki meðhöndla hross nema þau séu einstaklingsmerkt og sláturhús mega ekki taka hross til slátrunar nema þau séu örmerkt.

Höfum þessi mál í lagi, örmerki eru löngu búin að sanna gildi sitt. Rétt er að benda á að nú er WorldFengur opinn að hluta til fyrir alla án endurgjalds (www.worldfengur.com). Hægt er að leita að hrossum eftir fæðingarnúmeri, nafni, uppruna og örmerki þannig að allir sem aðgang hafa að netinu geta kannað hvort örmerki sem sett eru í hrossin þeirra skili sér ekki örugglega inn í WF.

hes/okg