Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Nú er um eitt og hálft ár liðið frá því að sýnataka úr kvígum varð almenn og lætur nærri að af öllum kvígum fæddum árið 2023 séu 80% arfgreindar og með erfðamat. Þetta hlutfall verður án efa töluvert hærra á yfirstandandi ári. Það fylgir því ætíð nokkur spenna að sjá hvaða mat yngstu gripirnir fá, gripirnir sem munu taka við kyndlinum og verða mjólkurkýrnar í fjósinu að 2-3 árum liðnum. Eðlilega eru mismiklar væntingar gerðar, stundum miklar og stundum minni. Það er alltaf ánægjulegt þegar gripir standa undir væntingum og ekki er ánægjan minni ef niðurstaðan fer fram úr væntingum.
Hafa verður í huga að erfðamatið er spá, það segir til um hvers við væntum af gripunum. Auðvitað vonum við að það gangi eftir en stundum getur það brugðist. Öryggi erfðamatsins er þó það hátt að líkurnar á því eru mun minni en meiri. Hér er að finna lista yfir þær kvígur sem hæstar eru í erfðamati á landinu öllu. Á listanum eru dætur sæðinganauta sem eru með heildareinkunn upp á 108 eða hærri. Nú er það svo að víða eru kvígur undan heimanautum sem eru með hærri heildareinkunn en 108 og því er eðlilegt að spurt sé af hverju þær eru ekki með á þessum lista. Því er til að svara að öryggi matsins á dætrum heimanauta er lægra en dætrum sæðinganautanna, sérstaklega ef þau er án arfgreiningar að ekki sé talað um þar sem faðir er óþekktur. Mati þeirra kvígna verður því að taka með mun meiri fyrirvara en dætra sæðinganauta.
Ef við skoðum aðeins listann þá kemur í ljós að dætur þeirra Banana 20017, Marmara 20011, Kvóta 19042, Óðins 21002, Garps 20044, Hengils 20014 og Tanna 15065 eru áberandi. Það er eðlilegt, þeir voru bæði hátt metnir og mikið notaðir. Banani 20017 á 466 dætur á listanum, Marmari 20011 á 349, Kvóti 19042 á 316, Óðinn 21002 á 229, Garpur 20044 á 188, Hengill 20014 á 138 og Tanni 15065 á 120.
Efsta kvígan á listanum er Hýra 1031 á Göngustöðum í Svarfaðardal en hún stendur með 122 í heildareinkunn og 131 í afurðaeinkunn. Hún er dóttir Billa 20009 og móðurfaðir hennar er Jörfi 13011. Næstar í röðinni eru fjórar kvígur sem státa af 120 í heildareinkunn. Þetta eru 1355 í Dæli í Fnjóskadal undan Garpi 20044 og móðurfaðir er Jörfi 13011, 653 í Ytri-Tungu á Tjörnesi undan Marmara 20011 og móðurfaðir Hæll 14008, Lása 1505 í Ártúnum á Rangárvöllum undan Kvóta 19042 og móðurfaðir er Steri 13057 og Marmarasulta 728 í Sólheimum í Hrunamannahreppi undan Marmara 20011 og móðirfaðir er Sjarmi 12090. Við þessa gripi hljóta miklar væntingar að vera bundnar sem og flesta, ef ekki alla, gripi sem á listanum er að finna.
Listinn er, eins og áður sagði, í viðhengi. Honum er raðað eftir heildareinkunn og svo búsnúmeri þannig að hver og einn á að vera tiltölulega fljótur að finna sínar kvígur og sjá hvar þær standa í samanburði við aðrar. Þetta er þá líka um leið listi yfir efnilegar kvígur, þ.e. kvígur sem mjög æskilegt er að verði sæddar með það í huga að fá undan þeim nautkálf á stöð.
Sjá nánar:
Efstu kvígur í erfðamati - sept. 2024