DNA-sýni kynbótahrossa 2023

Nú styttist óðfluga í fyrstu kynbótasýningar vorsins 2023 og vert að hvetja ræktendur sérstaklega til að huga vel að þeim kröfum sem gerðar eru til DNA-sýna og ætternisstaðfestingar kynbótahrossa. Enn fremur minna á að tryggast og best er að taka sýnin tímanlega þannig að niðurstaða sýna liggi fyrir við kynbótadóm. Mikill og afgerandi meirihluti sýndra hrossa undangenginna ára er löngu kominn með niðurstöðu DNA-greiningar við komuna til dóms. Þá fyrst er hægt að bregðast við tilfallandi skekkjum í ættfærslum, þegar niðurstaða sýnanna liggur fyrir.

Samkvæmt reynslu undangenginna ára leiða um 2-5% DNA-sýna hrossa til leiðréttinga á ættfærslum. Uppgötvaðar skekkjur eru af ýmsum rótum runnar s.s. misvísandi niðurstaða sónarskoðana (hryssa hjá fleiri en einum hesti samsumars), mistök verða við örmerkingu/skráningu folalda (sérstakur áhættuþáttur er að merkja folöld seint og eftir að þau hætta að fylgja mæðrum örugglega), röng folöld fylgja mæðrum úr stóðhestagirðingum (enginn einstaklingur ætti að fara óörmerktur inn í stóðhesta-girðingu), folaldavíxl hryssna við köstun er tíðara en margur hyggur o.s.frv. Af sjálfu leiðir að ræktunarstarf og kynbótaspá (BLUP) sem byggir á ættfærsluskekkjum hefur ekkert gildi.

Skýrar niðurstöður hrossasýna, við dóm, loka alveg fyrir annars mjög óheppilegan möguleika á að afkvæmaverðlaun á okkar stærstu viðburðum (LM og FM) séu veitt á röngum forsendum; m.ö.o. þá verður að vera borðleggjandi vissa fyrir því að afkvæmaverðlaunahross eigi sannarlega þau afkvæmi sem mat þeirra byggir á.

Þekkingarfyrirtækið Matís í Reykjavík býður greiningar hrossasýna (strok-/hársýni) og skilar niður-stöðum í WorldFeng. Greiningartími sýna er aldrei lengri en mánuður frá móttöku en í langflestum tilfellum skemmri. Þá er einnig hægt að óska sérstakrar hraðgreiningar sem tekur um x5-10 virka daga frá móttöku sýnis. Matís geymir enn fremur öll sýni sem þar eru unnin í sýnabanka sem er aðgengilegur til framtíðar til frekari greiningarvinnu og þekkingaröflunar fyrir íslenska hrossarækt og eigendur viðkomandi hrossa. Þannig má ganga aftur og aftur í fyrirliggjandi sýni eftir því sem þekkingu og uppgötvunum á samhengi erfðavísa og fjölbreyttra eiginleika fleygir fram.

Mikilvægar breytingar í farvatni
Eins og hrossaræktendur þekkja þurfa stóðhestar fyrir dómi bæði að vera með staðfesta F- og M-ætt (sýni til úr M og F). Mun minni kröfur hafa fram til þessa verið gerðar til hryssna og geldinga – einungis farið fram á greint DNA-sýni úr þeim sjálfum burtséð frá framættum. Ríkari kröfur um fulla ættfærslustaðfestingu hryssna og geldinga í dómi verða gerðar frá og með sýningarárinu 2028; þ.e. þau folöld sem fæðast árið 2024 og síðar þurfa að geta staðfest ættfærslu sína að fullu síðar á lífsleiðinni – sé þeim ætlað hlutverk í kynbótadómi eða opinberri keppni sem mun undirbyggja kynbótamat (BLUP) komandi ára. Reglur þessa efnis hafa þegar fengið umræðu og samþykki á vettvangi Fagráðs í hrossarækt og standa til samþykktar hjá FEIF í febrúar á næsta ári.

Í þessu samhengi er gríðarlega mikilvægt að hrossaræktendur séu vakandi yfir stöðunni á DNA-sýnum sinna ræktunarhrossa. Eru til sýni úr feðrum og mæðrum þar og þegar til á taka og þörf krefur? Í raun er fyrrgreind og boðuð breyting lokaskref í ferli sem hófst árið 2006 með markvissum DNA-sýnatökum úr ræktunarhrossum á Íslandi. Hringnum er lokað 2028.

Staðan nú
Til að gefa innsýn í stöðu ætternisstaðfestinga kynbótahrossa eru hér samantekin gögn fyrir stærstu sýningaviku vorsins 2022 á Hellu (Vorsýning Gaddstaðaflötum 30.maí – 4.júní 2022).

Sýningavikuna 30. maí til 4. júní ´22 komu alls 133 hross til dóms á Hellu. Fullnaðardómar voru 117 og einfaldir sköpulagsdómar alls 16. Öll dæmd hross höfðu sannaða föðurætt og 90% þeirra einnig staðfesta móðurætt. Hross án staðfestrar móðurættar voru eðlilega allt hryssur en hjá 13 hryssum af alls 76 (17%) á sýningunni var svo ástatt um; þ.e. sýni ekki til úr móður. Í raun má því að segja að ef miðað er við stærstu sýningaviku vorsins ´22 þá sé alls ekki langt í land með fulla ætternisstaðfestingu nú þegar – fulla sönnun allra sýndra hrossa.
Til að skoða enn frekar hvaða hross eru yfir höfuð að koma til dóms og þannig í flokki virkra ræktunarhrossa til framtíðar er hér önnur samantekt yfir sömu sýningaviku á Hellu.

Kemur að líkindum fáum á óvart, en staðfestist hér, að sýnd hross eru með fáum undantekningum undan sýndum foreldrum; úrvalið gengur lið fram af lið og fylgir þeim hluta hrossastofnsins sem hefur verið metinn og mældur. Sýnd hross á Hellu, 30.maí – 4. júní ´22, áttu sýnda feður í 99% tilvika og sýndar mæður í 90% tilvika.

Framtíðarmúsík
Auknar kvaðir um staðfestingu ættfærslu hrossa á opinberum viðburðum, kynbótasýningum og í keppni, eru sterkur grunnur undir þróun ræktunarstarfs á komandi árum og ekki bara til að geirnegla grundvöllinn í réttri ættfærslu. Fáir efast um að þróun og rannsóknir á sviði erfðatækni og erfða-rannsókna mun færa hrossaræktinni fjölmargar uppgötvanir og verkfæri í framtíðinni. Verkfæri til að auka öryggi ræktunarstarfsins, elta stórvirka erfðavísa hverra áhrif eru þegar eða verða upplýst (sbr. til dæmis litaerfðir hrossa, þekkt meingen), verkfæri sem stuðla að styttingu ættliðabils og hraðari erfða-framförum. Uppgötvun gangráðs/skeiðgens (DMRT3) var bylting en trúlega bara góð byrjun. En forsendan fyrir þessari framtíðarsýn er og verður markviss, skipuleg og sjálfsögð sýnataka úr þeim hópi hrossa sem er verðandi foreldrar næstu kynslóðar.

Þá er vert að minna á að íslensk hrossarækt er öflug útflutningsgrein. Á árinu 2022 voru 26% útfluttra hrossa með fullstaðfesta ættfærslu; föður- og móðurætt. Dagljóst að hér væri hægt að gera miklu betur.

/okg