DNA-sýni hrossa

Allmörg hrossaræktarbú afgreiða DNA-sýnatökur úr folöldum strax á folaldshausti eða fyrst eftir fæðingu; samhliða örmerkingum. Sýnatakan er einföld, strok úr nös eða nokkrir lokkar úr faxi eða tagli – með hársekkjum. Með því að vinna þetta tímanlega á lífsleiðinni er ýmislegt fengið.

Hafi eitthvað farið úrskeiðis s.s. folaldavíxl hjá hryssum við köstun, víxl við örmerkingu, rangur faðir skráður, þá uppgötvast það strax og enn sterkari líkur til að eigendur muni og viti um leið hvað gæti hafa misfarist.

Framkvæmd sýnatöku úr hrossum: Dýralæknar, starfsfólk RML og allir örmerkingamenn. Greiningaraðili sýna á IS: Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík, S: 422-5000.

Sýnaniðurstöður Matís eru yfirfarnar af RML og keyrðar inn í upprunaættbók íslenska hestsins – WorldFeng. Öllum málum þar sem skráð ættfærsla stemmir ekki við niðurstöðu DNA-sýna er fylgt eftir til leiðréttinga, í samráði við skráða eigendur. Tíðni rangra ættfærslna sem uppgötvast við sýnatöku er allajafna á bilinu 1-5% í hverju því sýnasafni sem afgreitt er frá Matís.

Ættfærsla allra stóðhesta sem koma til kynbótadóms skal staðfest, bæði í F- og M-legg, þ.e. sýni á að vera til úr F og M. Því er áríðandi að hafa í huga að tryggja sýni úr öllum hryssum sem mögulega eru verðandi stóðhestamæður. Krafa á hryssur og geldinga, fyrir dómi, er að sú ein að sýni hafi verið tekið úr þeim sjálfum. Fyrir áhugasama WorldFengs-grúskara má sjá að á IS-sýningum ársins 2024 heyrir til undantekninga að hryssur í kynbótadómi séu ekki þegar með staðfesta föður- og móðurætt – rétteins og stóðhestarnir. Það er afskaplega jákvætt styrkleikamerki og öryggis í íslenskri hrossarækt.

Fjöldamargir ungfolar, tveggja og þriggja vetra, eru notaðir eitthvað á hryssur áður en þeir koma eldri í kynbótadóm. Það er forsjálni og varlegt að til sé DNA-sýni úr þessum vonarstjörnum áður en þeir koma nálægt hryssum. Í stuttu máli er skynsamlegt að nota aldrei fola eða hesta – fyrr en DNA-sýni er fyrirliggjandi úr þeim. Þá er það áleitin spurning hvort nokkurt hross ætti að yfirgefa Ísland án DNA-greiningar? Undangengin ár hefur hlutfall útfluttra og greindra hrossa verið gróflega á bilinu 25-30%.Hér er margt að vinna og sóknarfæri.

Á myndinni sem fylgir eru Hjörtur Ingi Magnússon og Pétur Halldórsson við sýnatöku að Feti, í desember 2024. Ljósmyndari: Sigvaldi Lárus Guðmundsson.

Sjá nánar: 
Aðilar með leyfi MAST til örmerkinga hrossa 
Ítarefni um DNA-hrossa og sýnatökur

/okg