Búseta í sveit

Búseta í sveit heitir verkefni sem hefur verið unnið hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins undanfarið ár. Verkefnið er í umsjá Guðnýjar Harðardóttur og var unnið með styrkveitingu frá Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.

Vegna ályktunar frá Búnaðarþingi 2013 sem var í þá veru að efla skyldi ráðgjöf varðandi ábúendaskipti á bújörðum var ráðist í þetta verkefni. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa ráðgjöf vegna ættliðaskipta og upphafs búrekstrar. Auknar kröfur stjórnsýslunnar ásamt stækkandi búum hafa leitt til þess að eftirspurn eftir slíkri ráðgjöf og þjónustu hefur aukist til muna.

Til varð efni sem er nú aðgengilegt hér á vef RML ásamt efni sem er rafrænir vegvísar sem fást hjá næsta ráðunaut. Þeim er ætlað að vísa leiðina við upphaf búskapar ásamt því að þeim fylgir klukkustundar ráðgjöf/þjónusta frá ráðunaut. Gjaldið er vægt eða 10 þúsund krónur.

Síðast en ekki síst var unnið að því að gera ráðgjöf vegna ættliðaskipta og upphafs búskapar markvissari. Mikil vinna var lögð í efni tengt málefninu og er það efni aðgengilegt starfsmönnum RML. Lögð var áhersla á þær fjölmörgu spurningar sem vakna og nauðsynlegt er að fá svör við þegar ættliðaskipti eiga sér stað. Aðstæður eru misjafnar í hvert og eitt skipti og því ólík úrræði sem henta hverju sinni. Ráðunautar eru nú mun betur búnir undir slíka ráðgjöf og þjónustu.

Hvetjum við fólk til að skoða það efni sem aðgengilegt er nú hér á vefnum.

Sjá nánar: 

Búseta í sveit

gh/okg