Breytingar á Fjárvís

Í gærmorgun var keyrð uppfærsla á Fjárvís en undanfarið hefur staðið yfir vinna við hinar ýmsu breytingar sem nú koma inn. Þar ber helst að nefna:

Viðbótarflögg 
Nú fá afkvæmi foreldra sem eru arfblendin um verndandi og/ mögulega verndandi arfgerð röndótt flögg, þar sem ekki er hægt að spá fyrir með 100% vissu hver arfgerð þeirra er, nema með arfgerðargreiningu. Afkvæmi hrúts sem er arfblendinn ARR og T137 fær þannig fána sem er dökkgræn/ljósgrænröndóttu sem gefur til kynna að hann ber örugglega annað hvort verndandi eða mögulega verndandi arfgerð. Að sama skapi fær afkvæmi grips sem er arfblendinn T137 og H154 ljósgræn/hvítröndóttan fána þar sem það er örugg að hann ber mögulega verndandi arfgerð þó ekki sé hægt að segja til um hvor arfgerðin það er. Þessir fánar munu telja í mælaborði sem unnið verður í haust í tengslum við landsáætlun um útrýmingu riðu, en eru ekki nýttir í áframhaldandi arfgerðarspár þar sem ekki er ljóst hvaða arfgerð gripurinn ber nákvæmlega.

Forskráning og innlestur fyrir gula fitu, bógkreppu og þokugen 
Nú geta bændur forskráð aðrar arfgerðargreiningar, en það eru arfgerðargreiningar fyrir gula fitu, bógkreppu og þokugen. Forskráning fyrir aðrar arfgerðargreiningar birtist sem valmöguleiki undir Skráningar og þeir gripir sem hafa þessa greiningu fá bláan helix fyrir framan gripanúmerið í gripaleitinni. Niðurstöðurnar er svo að finna inni í gripnum, undir Arfgerðargreiningar (DNA) en þær birtast fyrir neðan Riðuarfgerðargreiningar.

Breytingar á þungaskráningu:
Ýmsar breytingar á þungaskráningu, nú er runuskráningin t.d. komin aftur inn, ásamt fleiri smærri breytingum.

Einhverjir lentu mögulega í villumeldingum í þungaskráningunni í gærmorgun, á meðan kerfið var uppfært, en það ætti að vera komið í lag. Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem það kann að hafa valdið.

/okg