Bógkreppa – sýnataka

Líkt og fram kom á fagfundi sauðfjárrræktarinnar 13. apríl sl. í erindi Sæmundar Sveinssonar hjá Matís er nú unnið að því að þróa próf fyrir bógkreppu en rannsóknir á þessum erfðagalla standa yfir. Að þessu verkefni vinna RML, Matís og Keldur í samstarfi við AG-Research í Nýja-Sjálandi.

Næsta skref í þessu verkefni er að prófa sýni úr hugsanlegum arfberum bógkreppu með svokölluðu setraðaprófi. Setraðaprófið ætti að geta svarað því með allmiklu öruggi hvort gripurinn sé líklegur til að bera erfðavísi fyrir bógkreppu. Markmiðið með þessum rannsóknum er þó að finna sætið sem stökkbreytingin er í sem veldur gallanum.

Við söfnun sýna fyrir verkefnið verður lögð áhersla á að fá:

  • Sýni úr sem flestum bógkreppulömbum sem fæðast í vor og báðum foreldrum þeirra.
  • Sýni úr sonum Viðars 17-844.
  • Önnur áhugaverð sýni (s.s. Viðarsdætur eða hrútar sem liggja undir grun).
  • Þar sem aðeins verður hægt að greina takmarkaðan fjölda sýna verður beitt forgangsröðun við val sýna í greiningar og því ekki hægt að lofa því að öll sýni sem berast verði hægt að greina – a.m.k. ekki í fyrsta kasti. Þessar greiningar verða bændum að kostnaðarlausu þar sem þetta er hluti af rannsóknarverkefni.
  • Nota má sömu hylkin og verið er að dreifa vegna sýnatöku fyrir riðuarfgerðargreiningar. Ekki er hægt að nota stroksýni fyrir þessar greiningar. Merkja þarf sýnin vel (gripanúmer og bæjarnúmer) og láta fylgja þeim upplýsingar um gripinn sem sýnið er úr og hvernig hann tengist bógkreppu.
  • Sýnin sendist til Eyþórs Einarssonar, RML (Borgarsíða 8, 550 Sauðárkróki) en Eyþór veitir nánari upplýsingar varðandi söfnun sýna fyrir verkefnið (ee@rml.is).

/okg