Bændur hvattir til að tryggja sér nægan áburð og fræ

Frá Heiðargarði í Aðaldal
Frá Heiðargarði í Aðaldal

María Svanþrúður Jónsdóttir, ráðunautur RML sendi bændum á Norðurlandi bréf nú í morgun fyrir hönd ráðunauta RML, þar sem hún hvetur menn til að láta vita hafir þeir áhyggjur af því að heyforði þeirra nægi ekki framúr eftir þennan langa gjafavetur.

Eins og María segir í bréfinu hefur nú þegar átt sér stað heilmikil miðlun á heyi og allnokkrir keypt hey sunnan og vestan af landi, en eins og staðan er í dag, þá sé ómögulegt að segja hve langur gjafatíminn verði í viðbót. Margir hafi drýgt heyin með byggi og annarri kjarnfóðurgjöf sem vissulega þarf ekki að vera síðri kostur en heykaup upp að vissu marki.

María hvetur menn á Norður- og Austurlandi til að láta vita eigi þeir hey sem hægt sé að miðla til þeirra sem heytæpir eru.

Í bréfi Maríu kemur enn fremur fram að allmargir bændur á Suður- og Vesturlandi hafi látið ráðunauta RML vita um hey sem þeir hafi til sölu og sé það í ýmsum gæðaflokkum, allt frá því að vera þokkalegt hestahey og upp í að vera gott kúa- og sauðburðarhey. Verðflokkarnir séu að sama skapi breytilegir og flutningskostnaður vissulega talsverður en það geti verið enn kostnaðarsamara að bregðast ekki við í tíma.

Upplýsingar um framboð á heyi er hægt að nálgast hjá ráðunautum RML, og mun Ingvar Björnsson hafa umsjón með þessari heymiðlun af hálfu RML eftir því sem þarf.

Þá segir María að tún liggi víða undir snjó og klaka og ekki sé gott að segja hvernig útlitið á þeim verði þegar snjóa leysir. Starfsmenn RML muni verða bændum innan handar varðandi viðbrögð við kali, ráðleggingar um endurvinnslu og fleira. Margir hafi verið tvístígandi við val á áburði í ljósi þeirrar óvissu sem enn ríki og þar sem fyrningar verði hverfandi í vor séu bændur með hugann við að ná sem mestum heyforða og helst varaforða líka. Þetta kalli á aukin áburðarkaup - og í mörgum tilvikum verulegar sáningar á grasi og grænfóðri. Í því samhengi sé rétt að hvetja bændur til að huga að sáðvörupöntunum ekki síður en áburðarpöntunum því afgreiðslufrestur sé langur og umframbirgðir ekki miklar hjá áburðar- eða fræsölum.

María lýkur sínu bréfi með þessum orðum „Þessi vetur er orðinn með fádæmum langur og erfiður á svo margan hátt. Mikilvægt er að við stöndum öll saman um það að vinna okkur fram úr vandanum og verkefnunum. Við hvetjum ykkur bændur því til að hafa samband ef við getum orðið að liði“.

bpb/okg