Átaksverkefni RML í arfgerðargreiningum – fyrstu niðurstöður

Átaksverkefni RML í arfgerðargreiningum – fyrstu niðurstöður
Komnar eru niðurstöður fyrir þau sýni sem send voru af stað til greiningar 15. febrúar en þá fór fyrsta sendingin út til Þýskalands. Í þessum pakka eru niðurstöður fyrir 2.625 kindur frá 27 bæjum. Þessi bú eru flest í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu – þ.e. á upphafssvæði riðuveiki.
Í þessum greiningum er leitað í 6 sætum á príongeninu að breytileikum sem ýmist er vitað að hafi áhrif á næmi kinda fyrir riðuveiki eða hafa mögulega áhrif: 136, 137, 138, 151, 154 og 171

- Líkt og við var búist er langstærsti hópurinn hlutlaus m.t.t. allra sex sætanna (arfgerðin ARQ/ARQ án frekari breytileika). Í þeim hópi voru 1.702 gripir eða 65% þeirra, áhugavert þó að hlutlausir gripir séu ekki enn hærra hlutfall en raun bar vitni.

- Engin kind fannst með hina alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð ARR.

- Bráðabirgðarniðurstöður höfuð sýnt að þrjár kindur væru með T137, þær voru allar frá Sveinsstöðum líkt og komið hefur fram áður en ekkert bættist við þegar endanlegar niðurstöður lágu fyrir.

- Í sæti 151 er að finna breytileika sem mögulega gæti verið verndandi í arfhreinu ástandi. Í það minnsta standa væntingar til þess að arfgerðin sé lítið næm. Í samtals 30 kindum á 12 búum var að finna þennan breytileika, táknaður C í sæti 151. Allir gripirnir voru arfblendnir.

- Þá er býsna algengur breytileiki í sæti 138 sem táknaður er með N. Í þessum pakka voru 263 kindur með N138 á 24 búum eða 10% af kindunum . þar af 9 kindur arfhreinar. Sá breytileiki er talin hafa verndandi árhrif í hreindýrum en áhrifin óljós varðandi sauðfé, en hér eru jafnframt væntingar um að þessi breytileiki geri kindur ónæmari fyrir því að taka upp riðusmit.

- Í þessum gögnum var talsvert af kindum með lítið næmu arfgerðina (AHQ), enda eru nokkur bú á þessu svæði sem hafa að einhverju eða miklu leyti lagt áherslu á að koma þeirri arfgerð inn í stofna sína. Í heildina voru 452 gripir sem bera lítið næmu arfgerðina eða 17,2%. Þar af voru 63 kindur arfhreinar. Hér eru ekki taldar með kindur sem bera bæði áhættuarfgerðina og lítið næmu arfgerðina, þær eru flokkaðar hér með áhættuarfgerðinni.

- Áhættuarfgerðin (VRQ) fannst í 202 kindum eða 7,7% gripanna. Þar af voru 5 ær arfhreinar og teljast því einstaklega óspennandi fénaður fyrir bú á riðusvæði.

Niðurstöður hafa verið sendar hverjum og einum bónda í tölvupósti. Fjárvís er enn ekki tilbúinn til að taka á móti þessum gögnum en vinna er í gangi sem miðar að því að leysa það mál.

Næstu skref
Sýnataka gengur vel. Þegar er búið að taka um 8.500 sýni og senda til greiningar af þeim tæplega 25 þúsund sýnum sem áætlað er að taka í vetur. Mikill meirihluti sýna er tekinn af bændum sjálfum. Bændur þurfa að koma sýnum þegar þau eru klár á næstu starfsstöð RML. Ef bændur kjósa að senda sýnin með pósti til RML þá er best að senda þau á Sauðárkrók (RML/Borgarsíðu 8/ 550 Sauðárkrókur). Sendingar til greiningar verða nánast vikulega næstu vikurnar.

Myndin með fréttinni er af 20-006 frá Höfða í Grýtubakkahreppi sem er ein af þeim 30 kindum sem greindust með arfgerðina C151.