Átaksverkefni í ráðgjöf til framleiðenda nautakjöts - síðasti skráningardagur - 1. ágúst

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er að hrinda af stað átaksverkefni í ráðgjöf til framleiðenda nautakjöts. Meginmarkmið verkefnisins er að efla nautakjötsframleiðslu sem búgrein, bæði rekstrarlega og faglega til að auka framboð og gæði þess kjöts sem framleitt er, þ.e. auka fagmennsku í greininni. Þetta verður gert með því að skoða sérstaklega rekstrarforsendur kjötframleiðslu og benda á leiðir til úrbóta og enn fremur með því að byggja upp þekkingu og bæta ráðgjöf til handa nautakjötsframleiðendum.

Auglýst hefur verið eftir þátttakendum í verkefninu sem er til næstu þriggja ára. Gert er ráð fyrir að þátttakendur geri samning við RML þar sem bæði réttindi og skyldur beggja aðila eru tilgreind. Verkefnið verður þannig upp byggt að gerð verður úttekt á rekstri og arðsemi kjötframleiðslu á viðkomandi búum og sett upp áætlun til þriggja ára sem miðar að því að bæta rekstrarforsendur og gæði framleiðslunnar. Þátttakendur fá rekstraráætlun og ráðgjöf varðandi fóðrun, aðbúnað, skýrsluhald og almennt um uppeldi nautgripa til kjötframleiðslu. Verkefnið er styrkt af þróunarfé nautgriparæktarinnar og Framleiðnisjóði.

Frestur til að sækja um þátttöku í verkefninu er til 1. ágúst nk. Miðað er við að þátttakendur hafi framleitt og/eða ætli sér að framleiða nautakjöt svo einhverju nemi og sé sá rekstur, eða eigi að vera, annað hvort aðalbúgrein eða til hliðar við mjólkurframleiðslu eða aðrar búgreinar.
Áætlað er að verkefnið fari formlega af stað í haust og byrjað verði á úttekt á búum þátttakenda. Í framhaldinu verði hugað að markmiðssetningu og því sem gera þarf til að auka hagkvæmni og gæði framleiðslunnar. Í kjölfarið verði síðan ráðist í gerð áætlana fyrir búið.

Áhugasömum er bent á að kynna sér upplýsingar sem finna má hér á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvarinnar varðandi verkefnið. Mikilvægt er að væntanlegir þátttakendur kynni sér og/eða leiti ráða varðandi skráningu á fóðuröflun, heysýnatöku og annað sem þarf að huga að í sumar til undirbúnings þátttöku í verkefninu. Einnig er hægt að hafa beint samband við ráðunaut og fá nánari upplýsingar með því að hringja í Ráðgjafarmiðstöðina í síma 516 5000.