Átaksverkefni – hvenær kemur sýnatökubúnaðurinn?

Nú er allt í fullum gangi við að undirbúa útsendingu á sýnatökubúnaði vegna átaksverkefnisins sem gengur út á að arfgerðagreina sauðfé m.t.t. hversu næmt það er fyrir riðusmiti og leita að verndandi arfgerðum.

Í gegnum verkefnið var útdeilt 18.000 arfgerðargreiningum sem voru niðurgreiddar af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar og síðan býðst mönnum að taka umfram það ótakmarkaðan fjölda sýna, á mjög hagstæðum kjörum eða 2.350 kr. án vsk. hver arfgerðargreining.
Þar sem sótt var um greiningar á u.þ.b. 34.000 sýnum, þá fær hver aðili ekki úthlutað nema ákveðnum fjölda sýna á tilboðsverði. Líkt og komið hafði fram í kynningarefni, var miðað við að pantaðar væru a.m.k. 25 greiningar til að komast í þann pott og hámark sett á 300 greiningar.

Allir sem sóttu um í gegnum heimasíðu RML fyrir 1. febrúar fengu svar í tölvupósti sl. föstudag eða laugardag. Þessum tölvupóstum hafa menn þurft að svara og staðfesta hvað þeir ætla að taka mörg sýni, hvort þeir vilji fá töng og hvort þeir hafi pantað þjónustu við sýnatöku eða ekki. Núna er unnið hörðum höndum að því á Sauðárkróki að útbúa poka með sýnatökuefni sem bændur geta síðan sótt. Þar sem ekki er allt sýnatökuefni komið til landsins og ekki búið að fá staðfestingar frá öllum þátttakendum, þá verður það eitthvað misjafnt hvenær sýnatökuefnið verður sent inn á hvert svæði. En sá háttur verður hafður á að bændur munu geta sótt sýnatökuefnið og skilað því aftur á næstu starfsstöð RML. Í einhverjum tilfellum verður líklega samið við bændur sem eru miðsvæðis að taka að sér útdeilinguna. Um leið og sýnatökuefnið er klárt til afhendingar þá munu bændur fá senda tilkynningu um að þeir geti nálgast það og hvert þeir skulu leita.
Sýnin verða send reglulega út til greiningar en best er að menn taki sýnin sem allra fyrst eftir að þeir hafa fengið búnaðinn í hendur og skili til baka þannig að sýnin komist í greiningu sem fyrst

Haft verður samband við þá sem ætla nýta sér það að fá þjónustu við sýnatökuna og þeir látnir vita hvenær sýnatakan sé fyrirhuguð.
Með svarpóstinum sem bændur fengu um síðustu helgi fylgdu upplýsingar í viðhengi, þessar upplýsingar eru einnig aðgengilegar hér á heimasíðunni, þar sem fram koma leiðbeiningar m.a. um merkingar sýna og notkun tangarinnar.