Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautgriparæktinni árið 2023
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2023 hafa verið reiknaðar og birtar á vef okkar, www.rml.is. Hér í fyrri hluta þessarar fréttar verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2023 hafa einnig verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar. Síðari hluti greinarinnar er helgaður því uppgjöri.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2023
Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 489 en á árinu 2022 voru þeir 507. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.308,6 árskýr skiluðu 6.411 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 98 kg/árskú frá árinu 2022 en þá skiluðu 25.031,9 árskýr meðalnyt upp á 6.313 kg. Þetta eru mestu meðalafurðir frá upphafi vega og áttunda árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.628 kg/árskú eða 101 kg meiri en árið áður.
Meðalbústærð reiknaðist 54,1 árskýr á árinu 2023 en sambærileg tala var 51,2 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 69,6 kýr en 2022 reiknuðust þær 67,2. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.151 talsins samanborið við 34.051 árið áður.
Mestar meðalafurðir á Norðurlandi eystra
Svæðaskipting fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Norðurlandi eystra, 6.474 kg, og síðan kemur Suðurland með 6.452 kg.
Stærst eru búin að meðaltali á Suðurlandi, 56,7 árskýr, en næststærst eru þau á Norðurlandi vestra, 55,6 árskýr.
Meðalbúið stækkar
Meðalbúið stækkaði milli ára sem er í takti við fækkun innleggsbúa og aukið innlegg mjólkur. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 318.531 lítrum samanborið við 298.655 lítra á árinu 2022. Á árinu fækkaði innleggsbúum mjólkur um 20 og voru kúabú í framleiðslu 471 talsins nú um áramótin 2023/24. Sú þróun að búunum fækki og þau stækki er því enn í fullum gangi og sér ekki fyrir endann á henni. Á næstu misserum mun mjólkurframleiðendum án efa fækka áfram en undanfarna áratugi hefur þeim fækkað um 1,6 á mánuði og hefur það meðaltal verið ótrúlega stöðugt. Víða er mikil fjárfestingarþörf í framleiðsluaðstöðu fyrir hendi sem færir manni heim sanninn um að einhverra sveita bíður ekki betri tíð með blóm í haga. Innan skamms kemur að því að þau fjós sem byggð voru um og upp úr aldamótunum síðustu þarfnast endurnýjunar til viðbótar við enn eldri aðstöðu sem er löngu úr sér gengin. Við þetta bætast svo auknar kröfur um aðbúnað og vinnuaðstöðu auk þess sem básafjós verða ólögleg frá og með 1. janúar 2034.
Áfram mikil vanhöld á kálfum
Litlar breytingar hafa orðið á vanhöldum kálfa milli ára. Gríðarmikill fjöldi dauðfæddra kálfa við fyrsta burð er þar stóra vandamálið en 26,6% afkvæma 1. kálfs kvígna komast ekki lifandi í þennan heim. Þetta hlutfall hefur meira að segja heldur hækkað milli ára. Ákveðinn hluti þessa mikla kálfadauða er bústjórnarþáttur þannig að með alúð og vandvirkni á að vera hægt að ná þessu hlutfalli niður.
Aldur kvígna við fyrsta burð er enn of hár og stendur í stað milli ára, er 27,2 mánuðir. Það er alveg með ólíkindum hvað við tölum fyrir daufum eyrum þegar bent er á að allar rannsóknir og athuganir sýna að hagkvæmast er að kvígurnar eignist sinn fyrsta kálf í kringum 23-24 mánaða aldur. Viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár höfum við bent mönnum á að láta kvígurnar bera yngri. Hvað gerist? Lítið sem ekkert. Er það virkilega svo að íslenskir kúabændur þurfi ekki að sækja aukna hagkvæmni í sinn rekstur líkt og kollegar þeirra erlendis?
Í sambærilegum pistli okkar fyrir rétt um ári síðan minntumst við á notkun sparinautanna, þ.e. nautanna sem standa í fjósum víða um land og ætti eingöngu að nota á hátíðis- og tyllidögum eins og sagt er. Íslenskir kúabændur gera sér oft glaðan dag samkvæmt þessu því að af fæddum kálfum á árinu 2023 voru rúm 32% undan sparinautum og hefur hlutfallið hækkað frá fyrra ári. Uppistaðan í þessum mikla fjölda er afkvæmi 1. kálfs kvígna því yfir 90% fæddra kálfa undan eldri kúm er undan sæðinganautum en innan við 30% kálfanna undan kvígunum. Hvað veldur því að menn velja frekar þann kost að nota naut á gamlar kvígur heima á búinu en láta sæða kvígurnar á réttum aldri? Getum við ekki öll verið sammála um að sæðinganautin eru betri? Eru kvígur sem bera við 24 mánaða aldur lakari mjólkurkýr en þær sem bera eldri? Allar tölur úr skýrsluhaldi og rannsóknum segja nei, þær eru það síður en svo! Það hefur meira að segja verið sýnt fram á kvígur sem bera við 23 mánaða aldur skili mestri æviframlegð.
Sæðinganautin eru valin undan bestu nautum landsins og bestu kúnum á hverju búi, arfgerðargreind, með reiknað erfðamat og hafa þar með fengið staðfest sín miklu gæði. Það hefur margoft verið rætt og ritað um þann ávinning sem felst í kynbótum og að hann er varanlegur. Sá árangur sem einu sinni næst gengur ekki til baka. Kynbótamatið er sett upp út frá hagrænu vægi eiginleika og á því að endurspegla nokkuð vel þá þætti sem bætt geta rekstur búsins. Þar með stuðla kynbætur að betri rekstri og afkomu. Okkur virðist sem að í þeirri umræðu sem fram hefur farið undanfarin misseri um afkomu nautgriparæktarinnar að kynbæturnar hafi gleymst en þær geta og eiga að stuðla að afkomubata. Til þess er leikurinn gerður. Búrekstur er flókinn og á hverjum degi stendur hver bóndi frammi fyrir margháttaðri ákvarðanatöku. Það er okkar sannfæring að ein alversta ákvörðun sem nokkur bóndi tekur í sínum rekstri er þegar hann leiðir fram sparinautið. Því miður taka margir oft vondar ákvarðanir. Þau fyrirtæki sem bændur eiga og reka saman hafa gert sitt, tekið í notkun nýjustu aðferðir og aukið þjónustu og aðgengi að upplýsingum svo um munar. Við eigum inni hagræðingu sem felst í fjölgun sæðinga á kvígum og lægri burðaraldri þeirra. Nú er boltinn heima á búunum!
Mestar meðalafurðir í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum
Á árinu 2023 reyndust kýr Aðalbjargar Rúnar Ásgeirsdóttur og Eyvindar Ágústssonar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum með mesta meðalnyt eftir árskú eða 8.903 kg. Í Stóru-Mörk er legubásafjós með mjaltaþjóni. Fyrir nokkrum árum tóku Aðalbjörg og Eyvindur við búi föðursystur Aðalbjargar ásamt kúabúinu í Stóru-Mörk 3 og þrátt fyrir að kýrnar séu í sama fjósi eru hjarðirnar enn aðskildar í skýrsluhaldinu. Búið hefur síðustu tvö ár verið afurðahæst eða með afurðahæstu búum í mánaðaruppgjörum skýrsluhaldsins og situr nú í efsta sæti við áramótauppgjörið. Meðalnyt kúnna í Stóru-Mörk 1 jókst um 757 kg milli ára.
Annað í röð afurðahæstu búa landsins er Hólmur í Austur-Landeyjum en þar stendur Garðar Guðmundsson fyrir búi. Kýrnar skiluðu 8.590 kg/árskú. Í Hólmi hefur verið legubásafjós með mjaltaþjóni um árabil og á árum áður reis frægðarsól þess hvað hæst þegar kynbótanautið Hólmur 81018, sem fæddur var í Hólmi, bar af mörgum öðrum fyrir hátt próteinhlutfall í mjólk dætra sinna. Meðalnyt kúnna í Hólmi reyndist 804 kg meiri en árið áður.
Þriðja afurðahæsta bú ársins 2023 er afurðahæsta bú ársins áður, Stakkhamar á Snæfellsnesi þar sem Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson ráða ríkjum. Kýrnar á Stakkhamri skiluðu 8.516 kg mjólkur/árskú sem er eilítið minni meðalnyt en árið á undan og munar þar 394 kg. Á búinu er legubásafjós með mjaltaþjóni.
Í fjórða sæti varð bú þeirra Guðrúnar Marinósdóttur og Gunnars Þórs Þórissonar á Búrfelli í Svarfaðardal en það skipaði efsta sæti þessa lista árin 2020 og 2021. Kýrnar á Búrfelli mjólkuðu til jafnaðar 8.340 kg/árskú sem er 34 kg minna en árið áður. Á búinu er legubásafjós með mjaltaþjóni. Fimmta búið í röð afurðahæstu búa ársins 2023 er Hrepphólar í Hrunamannahreppi. Á þessu fyrirmyndarbúi ársins 2018 mjólkuðu kýrnar 8.336 kg/árskú sem er 526 kg meiri meðalnyt en árið á undan. Í Hrepphólum er legubásafjós með mjaltaþjóni.
Þessum búum til viðbótar náðu 13 bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Það er tveimur búum fleira með yfir 8 þús. kg meðalafurðir en á árinu 2022.
Skjóða 610 á Hnjúki á Vatnsdal mjólkaði mest
Nythæsta kýr landsins árið 2023 var Skjóða 610 á búi Drifkrafts ehf. á Hnjúki í Vatnsdal, undan Lúðri 10067 og móðurfaðir hennar er Djass 11029. Skjóða mjólkaði 14.762 kg með 3,46% fitu og 3,62% próteini. Þetta eru mestu afurðir sem mælst hafa úr íslenskri kú á einu almanaksári frá upphafi. Burðartími hennar féll vel að almanaksárinu en hún bar sínum þriðja kálfi á jóladag 2022. Hæsta dagsnyt Skjóðu á nýliðnu ári var 53,7 kg og hún var enn í yfir 42 kg dagsnyt um mánaðamótin júlí/ágúst. Nú um áramótin var dagsnytin komin niður í 22,8 kg sem telja verður gott, 12 mánuðum eftir burð. Skjóða er fædd í desember 2018 og bar fyrsta kálfi 28. desember 2020. Skráðar æviafurðir hennar voru 27.252 kg um síðustu áramót og á yfirstandandi mjólkurskeiði eru afurðirnar eilítið meiri en ársafurðirnar eða 14.969 kg mjólkur.
Önnur í röðinni á nýliðnu ári var Skrítla 963 í Nesi í Grýtubakkahreppi, undan Sólon 10069 og móðurfaðir er Jaki 04044. Skrítla mjólkaði 14.563 kg á árinu með 3,85% fitu og 3,32% próteini. Hún bar sínum öðrum kálfi 10. nóvember 2022. Hæsta skráða dagsnyt Skrítlu var 47,5 kg í lok janúar en hún heldur gríðarvel á sér, um nýliðin áramót var nytin 32,4 kg. Skrítla fæddist 4. nóvember 2018 og átti sinn fyrri kálf fram að þessu 4. ágúst 2021. Skráðar æviafurðir við lok síðasta árs voru 26.302 kg mjólkur.
Þriðja í röðinni árið 2023 var Droplaug 875 í Dalbæ í Flóa, undan Dropa 10077 og móðurfaðir er Hryggur 05008. Þessi kýr mjólkaði 13.999 kg á árinu með 3,51% fitu og 3,14% próteini en sínum fjórða kálfi bar hún 17. nóvember 2022. Hæsta dagsnyt hennar var 55,1 kg í lok janúar og í lok júlí var hún enn í yfir 40 kg dagsnyt. Á síðustu vikum hefur minnkað í henni enda á hún tal um miðjan febrúar n.k. Droplaug er fædd 16. nóvember 2017 og bar sínum fyrsta kálfi 24. október 2019. Skráðar æviafurðir hennar um síðustu áramót voru 46.681 kg.
Fjórða nythæsta kýrin var Skella 1106 í Hrepphólum í Hrunamannahreppi. Skella er dóttir Skalla 11023 og móðurfaðir er Plútó 14074. Nyt hennar á árinu var 13.922 kg með 3,70% fitu og 3,18% próteini. Hún bar sínum þriðja kálfi 16. desember 2022, fór hæst í 55,4 kg dagsnyt í janúarlok og var komin í geldstöðu í desember s.l. enda væntanlegur burðardagur 5. febrúar n.k. Skella er fædd 4. desember 2018, átti sinn fyrsta kálf 10. nóvember 2020 og skráðar æviafurðir hennar um áramótin voru 34.492 kg.
Fimmta afurðahæsta kýrin að þessu sinni var Kera 720 á Grund í Svarfaðardal, dóttir Úranusar 10081 og móðurfaðir hennar er Tandri 11068. Kera er fædd 18. maí 2018 og átti sinn fyrsta kálf 3. október 2020. Hún bar þriðja sinni 15. nóvember 2022 og átti þá tvíkelfinga. Kera mjólkaði 13.637 kg á síðasta ári með 5,34% fitu og 3,52% próteini og hæsta skráða dagsnyt hennar var 49 kg. Um nýliðin áramót var hún enn í 22 kg dagsnyt. Nú um áramótin hafði Kera skilað samtals 36.042 kg mjólkur.
Alls skiluðu 174 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 50 yfir 12.000 kg. Árið 2022 náðu 158 kýr nyt yfir 11.000 kg.
Ár breytinga
Árið 2023 einkenndist af ákveðnum breytingum í nautgriparæktinni. Innleiðingu erfðamengisúrvals, sem ýtt var úr vör undir lok ársins 2022, var fram haldið. Stóra breytingin þar liggur í vali nauta á nautastöðina og svo framboði nauta í notkun hverju sinni. Kynntir voru til sögunnar nýir eiginleikar í kynbótamatinu sem taka til lifunar kálfa og gangs burðar. Vonandi munu þessir nýju eiginleikar koma að gagni í baráttunni við að fækka dauðfæddum kálfum.
Áfram er og verður þó skýrsluhaldið kjölfestan sem allt ræktunarstarf byggir á. Við viljum enn og aftur hnykkja á því að með erfðamengisúrvali er gott og vel fært skýrsluhald enn mikilvægara en nokkru sinni áður en tenging arfgerðanna við raunveruleg gögn skapar matið eða spána um hið raunverulega kynbótagildi gripanna. Skýrsluhaldið er einnig grunnur til að byggja daglega ákvarðanatöku á og bæta reksturinn og með skilvirkri og markvissri notkun þess verður bústjórnin bæði auðveldari og betri. Einn þeirra þátta sem huga þarf vandlega að í skýrsluhaldinu er taka kýrsýna. Á árinu skiluðu sér inn 197.645 nothæf kýrsýni en 5.009 sýni reyndust ónothæf ýmist vegna slælegra merkinga eða þá að efnahlutföll voru utan marka. Vanda þarf merkingar sýnanna þannig að ljóst sé með óyggjandi hætti úr hvaða grip viðkomandi sýni er. Þá þarf kýrsýnatakan að vera með þeim hætti að hún endurspegli mjólkina úr viðkomandi grip en ekki sé verið að fleyta rjómann. Þann búnað sem notaður er til kýrsýnatöku þarf að yfirfara og stilla þannig að búnaðurinn vinni vel og rétt. Með vönduðum vinnubrögðum verður sýnatakan góð en margt bendir til þess að við eigum að nýta sýnin í meira mæli en gert er. Á komandi misserum eigum við að horfa í auknum mæli til afurðagetu gripanna í kg verðefna, framleiða efnaríkari mjólk með minna vatnsinnihaldi. Þá getum við notfært okkur kýrsýnin með ýmsum öðrum hætti eins og t.d. varðandi fóðrunarástand gripanna, heilsufar og svo mætti áfram telja.
Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum og Hnjúki í Vatnsdal, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum gott samstarf á nýliðnu ári.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2023
Uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna hefur nú verið birt í rúmlega fimm ár og nær það uppgjör til þeirra búa sem halda holdakýr. Enn er þetta yfirlit þó þeim annmörkum háð að niðurstöður ná ekki yfir þær holdakýr sem eru á búum þar sem einnig er um að ræða mjólkurframleiðslu. Þetta hefur sína kosti og galla. Kosturinn er sá að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn er sá að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.
Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2023 nær til 122 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 92. Búunum fækkar því um fjögur milli ára eða jafnt og búum þar sem er að finna holdakýr ef erlendu kyni. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 3.445 talsins, sem er fjölgun um 93 frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 28,2 samanborið við 26,6 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 25,8 árskýr á bú en voru 25,9 árið 2022. Alls var um að ræða 2.706 skráða burði á þessum búum á árinu 2023 sem jafngildir 0,79 burðum/kú. Þetta er fækkun um 204 burði og samdráttur um 0,08 burði á kú milli ára.
Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2023
Heildarframleiðsla ársins á þessum 122 búum nam um 846 tonnum sem er samdráttur um 39 tonn milli ára. Þetta þýðir að þessi bú framleiða nálægt 17% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 6.934 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 3.242. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 7.023 kg og 3.557 gripir. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 225,6 kg, en hann reyndist 214,0 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 267,9 kg en þau vógu til jafnaðar 257,8 kg 2022. Til jafnaðar var ungneytunum fargað 721,3 daga gömlum eða 6,5 dögum yngri að meðaltali en á árinu 2022. Það jafngildir vexti upp á 343,7 g/dag, reiknuðum út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 335,6 g/dag. Til samanburðar var slátrað 9.553 (10.166) ungneytum á landinu öllu sem vógu 256,4 (251,5) kg að meðaltali við 743,1 (747,7) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2022. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum þyngri við lægri aldur að jafnaði eins og verið hefur undanfarin ár. Heilt yfir eru ungneyti þyngri en árið áður þrátt fyrir að vera alin aðeins færri daga.
Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 6,1 (5,5) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 4,9 (4,7). Flokkun er því mun betri á þessum búum til jafnaðar, rétt eins og árið áður, og sá munur fer vaxandi. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á landinu öllu er því nálægt því að flokkast í O.
Frjósemi
Á árinu 2023 fæddust 2.706 kálfar á þessum búum og reiknast meðalbil milli burða 451 (465) dagur. Bil milli burða er því nálægt 15 mánuðum sem er töluvert lengra en svo að meðalkýrin nái einum burði á ári. Framleiðsla nautakjöts með holdakúm verður tæpast arðbær hérlendis nema að þessi þáttur taki breytingum til batnaðar. Við þetta bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 14,1% (16,7%), 4,7% (5,5%) við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 3,3% (3,4%) þannig að fjöldi kálfa til nytja verður töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári.
Sæðingum á þessum búum heldur áfram að fækka og liggur við að sæðing á holdakú teljist til fréttnæmra viðburða. Þannig voru sæddar 451 kýr á árinu 2023 samanborið við 512 kýr árið áður. Hlutfall sæddra kúa lækkar því í 13,1% úr 15,3%. Fjöldi sæddra kúa af erlendu kyni var 321 af þessum 451 sem sæddar voru. Til jafnaðar voru kýrnar sæddar 1,3 (1,3) sinnum og að meðaltali liðu 103,4 (104,3) dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar þetta löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili en þó hafa mál færst til betri vegar hvað þetta snertir. Tilkoma Angus-sæðis frá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands jók notkun sæðinga milli 2020 og 2021 en nú virðist ákveðnum toppi náð. Notkun sæðinga á kjötframleiðslubúum nam aðeins 0,7% af öllum sæðingum á árinu 2023. Samtals voru notaðir 1.445 skammtar af holdasæði hér á landi á síðasta ári. Við verðum því einfaldlega að spyrja okkur þeirrar spurningar hve miklu má kosta til þegar um svona örnotkun er að ræða.
Tölur úr skýrsluhaldinu styðja að mörgu leyti það sem afkomutölur hafa sýnt. Búum fer nú fækkandi, meðalbúið stækkar og bilið milli þeirra sem gera hlutina vel og illa breikkar. Þá er greinilegt á þunga- og gæðatölum að nýja Angus-erfðaefnið er farið að láta til sín taka þó svo sæðingar með holdasæði fari að heyra sögunni til nema á örfáum búum.
Mestur þungi og vöxtur
Þyngsta ungneytið sem slátrað var árinu var naut nr. 1412 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Þessi gripur var holdablendingur, 50% Angus og 50% íslenskur, undan Val-ET 19402 og vóg 570,9 kg er honum var slátrað við 29,2 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN R+4. Í töflu 1 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 500 kg fallþunga á árinu 2023 en þau voru níu talsins og frá fjórum búum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að ungneyti eru gripir sem fargað er við 12-30 mánaða aldur. Þetta eru allt gripir sem hafa náð sérlega miklum vexti og þar með þunga en athygli vekur að þarna skila bæði Valur-ET 19402 og Draumur-ET 18402 ákaflega góðu.
Tafla 1. Þyngstu ungneyti á árinu 2023 (yfir 500 kg fall).
Í töflu 2 má sjá þau ungneyti sem náðu mestum daglegum vexti reiknuðum út frá fallþunga. Miðað er við að gripirnir hafi náð a.m.k. 15 mánaða aldri við slátrun og reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestum eða hröðustum vexti ársins náði naut númer 1382 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Sá gripur var holdablendingur, 2% Limousine, 82% Angus og u.þ.b. 16% íslenskur. Vöxtur þessa grips reiknast miðað við áðurnefndar forsendur 795,5 g/dag sem er geysigóður vöxtur.
Tafla 2. Ungneyti með mestan daglegan vöxt á árinu 2023 (tíu efstu).
Þessar tölur og listar yfir þá gripi sem eru þyngstir og vaxa mest sýna vel hve holdablendingarnir skara fram úr, einkum og sér í lagi synir yngri Angus-nautanna frá einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Nánast öll þyngstu ungneytin og þau sem náðu mestum vexti eru undan nýju Angus-nautunum eða sonum þeirra en S-A Dalmar í Hofsstaðaseli er sonur Draums-ET 18402.
Ef við skoðum graf það sem hér fylgir sjáum við að afkvæmi nýju Angus-nautanna ná meiri þunga á styttri tíma, þ.e. þau vaxa hraðar en önnur ungneyti sem slátrað var á síðasta ári. Þegar reiknaður er meðalvaxtarhraði á dag út frá fallþunga kemur í ljós að afkvæmi nýju Angus-nautanna uxu sem nam 456,4 g/dag meðan að önnur ungneyti náðu vexti sem nam 315,3 g/dag. Þarna munar rúmlega 140 grömmum á dag sem þýðir að á einni viku ná afkvæmi nýju Angus-nautanna 1 kg meira af kjöti en hinir gripirnir. Tölur um flokkun segja sömu sögu. Afkvæmi nýju Angus-nautanna voru með meðalflokkun upp á 7,66 á árinu 2023 þegar sambærileg tala fyrir önnur ungneyti var 4,69. Nýju Angus-nautin skila því gripum í R að jafnaði með að hin ungneytin flokkast í O að jafnaði.
Tölur ársins 2023 sýna að eldi sláturgripa fer fram og vegur þar tilkoma nýja Angus-erfðaefnisins án efa þungt en tilkomu þess er farið að gæta í sláturtölum. Hins vegar er breytileikinn alltof mikill eins og grafið sýnir okkur. Ótrúlegur fjöldi ungneyta nær ekki 200 kg fallþunga við slátrun. Greinilega er enn verk að vinna í því að bæta eldi og atlæti þeirra gripa sem aldir eru til kjötframleiðslu þannig að þeir nái ásættanlegum fallþunga. Það er eina leiðin til að framleiða gott nautakjöt á arðbæran hátt.
Að lokum er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023