Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Hér á eftir er farið yfir helstu niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar hér á landi fyrir árið 2024. Grein þessi er samhljóða þeirri sem nú birtist í Bændablaðinu. Eins og gefur að skilja þarf svona yfirlit ákveðinn undirbúning og því þarf einn daginn að ákveða að bíða ekki lengur eftir upplýsingum þeim sem enn kunna að vera ókomnar inn í grunn þann sem gögnin sem unnið er með eru sótt í. Sem dæmi má nefna voru upplýsingarnar um kjötframleiðsluna sóttar til vinnslu fyrir ríflega viku síðan og svipað gildir um mjólkurframleiðsluna, þannig að gögn sem bárust síðar eða eiga eftir að berast ná því miður ekki inn í uppgjörið. Telja má þó víst að þær tölur sem ekki náðu inn fyrir miðjan mánuðinn, breyti litlu sem engu um landsmeðaltöl því heimtur gagna mátti telja góðar á þeim tíma. Fyrst lítum við yfir mjólkurframleiðsluna en fast á eftir fylgir sú yfirferð sem varðar kjötframleiðsluna á nýliðnu ári. Töflur með ítarlegri upplýsingum en þeim sem birtast í greininni sjálfri má finna hér.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2024
Ár Íslandsmetanna
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2024 hafa verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.
Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 470 en á árinu 2023 voru þeir 489. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.103,5 árskýr skiluðu 6.523 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 112 kg/árskú frá árinu 2023 en þá skiluðu 25.308,6 árskýr meðalnyt upp á 6.411 kg. Þetta eru mestu meðalafurðir frá upphafi vega og níunda árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.772 kg/árskú eða 144 kg meiri en árið áður.
Meðalbústærð reiknaðist 56,1 árskýr á árinu 2024 en sambærileg tala var 54,1 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 72,6 kýr en 2023 reiknuðust þær 69,6. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.160 talsins samanborið við 34.151 árið áður.
Mestar meðalafurðir á Suðurlandi
Svæðaskipting fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru meðalafurðir eftir árskú mestar á Suðurlandi, 6.581 kg, og síðan kemur Norðurland eystra með 6.561 kg.
Stærst eru búin að meðaltali á Suðurlandi, 58,1 árskýr, en næststærst eru þau á Norðurlandi vestra, 57,8 árskýr.
Meðalbúið stækkar
Meðalbúið stækkaði milli ára sem er í takti við fækkun innleggsbúa og aukið innlegg mjólkur. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 333.467 lítrum samanborið við 318.531 lítra á árinu 2023. Á árinu fækkaði innleggsbúum mjólkur um 12 og voru kúabú í framleiðslu 459 talsins nú um áramótin 2024/25. Kúabúunum fækkar, þau stækka og kýrnar mjólka stöðugt meira. Afurðametin falla á ári hverju og stærð búanna eykst með hverju árinu sem líður. Þessi þróun hefur staðið í nokkra áratugi og stendur enn. Á heimsvísu er þetta ekkert einsdæmi og sömu þróun má sjá hvert sem litið er. Eðlileg afleiðing þessa er sú að stöðugt reynir meir á hæfni og getu bænda til þess að reka búin og sinna þörfum gripanna. Því miður er reyndin sú að á sama tíma og margir bændur blómstra og finna sig vel í þessu umhverfi heltast aðrir úr lestinni og leggja árar í bát. Það verður ekki framhjá því litið að árið 2024 var ekki að öllu leyti hagfellt hvað varðar ytri framleiðsluaðstæður mjólkurframleiðslunnar. Tíð til heyskapar var erfið um allt land og vaxtastig hátt auk þess sem byggingarkostnaður hefur hækkað stórlega. Þetta gerir óhægt um vik að endurnýja og endurbæta framleiðsluaðstöðu sem víða er komin til ára sinna þó ekki eigi það við í öllum tilvikum. Þrátt fyrir þetta sjáum við umtalsverða afurðaaukningu hjá íslensku kúnum og virðist litlu skipta hvernig árar. Bændur finna ávallt leiðir og blessuð kýrin stendur við sitt eins og hún hefur gert árhundruðum og að verða árþúsundum saman.
Góðu heilli hefur ekki allt farið á verri veg. Á árinu voru einnig stigin framfaraskref sem vonandi munu skila bæði ávinningi og bættum hag bænda. Næst okkur í tíma stendur innleiðing á kyngreindu sæði sem er nú hafin af fullum þunga eftir mikla og vandaða undirbúningsvinnu. Til landsins kom færanleg rannsóknastofa í desember síðastliðnum og kyngreint var sæði úr fimm íslenskum nautum og einu Angus-holdanauti. Á fyrstu mánuðum þessa árs verður svo gerð tilraun þar sem fanghlutfall af notkun hefðbundins og kyngreinds sæði verður borið saman. Kyngreint sæði á án efa eftir að bæta bæði hag mjólkur- og kjötframleiðslunnar en jafnframt þarf að vanda vel til verka og nota það á markvissan og réttan hátt. Erfðamengisúrvalið er enn í innleiðingarferli en nú hillir undir að synir nauta sem keypt voru á stöð eftir erfðamati fari að skila næstu kynslóð. Þá eru þær kvígur sem voru arfgreindar á árinu 2022 óðum að eignast sinn fyrsta kálf og þá kemur í ljós hvort erfðamatið eða spáin sem þær fengu á fyrstu vikum lífs síns var rétt eður ei. Í samtölum við bændur hefur komið fram ánægja með þetta mat og að það standist í meginatriðum. Sem dæmi má nefna að bóndi einn sagði að á sínu búi hefði einn kvígukálfurinn verið svo rólegur og gæfur að sérstaklega var eftir tekið. Þegar erfðamatið á gripinn kom reyndist það vera 135 fyrir skap. Það væri raunar með ólíkindum af allt gengi eftir sem þetta en eigi að síður ánægjulegt að heyra af slíku.
Aldur við 1. burð þokast í rétta átt
Aldur kvígna við fyrsta burð sígur niður á við og er nú 27,0 mánuðir samanborið við 27,2 mánuði árið á undan. Þetta er skref í rétta átt og virðist sem menn séu loks að átta sig á hve mikla hagkvæmni er að sækja í það að lækka burðaraldur kvígnanna. Allar rannsóknir og athuganir sýna að hagkvæmast er að kvígurnar eignist sinn fyrsta kálf í kringum 23-24 mánaða aldur. Að því ber að stefna.
Litlar breytingar hafa orðið á vanhöldum kálfa milli ára. Gríðarmikill fjöldi dauðfæddra kálfa við fyrsta burð er þar stóra vandamálið en 26,8% afkvæma 1. kálfs kvígna komast ekki lifandi í þennan heim. Þetta hlutfall er eilítið hærra en árið á undan sem er ákaflega miður. Hluti skýringarinnar liggur í bústjórn og alveg ljóst að þarna þarf að huga betur að kvígunum, ekki síst þegar nálgast burð.
Það leiðir okkur að öðru vandamáli sem er að væntanlegur burðardagur er í alltof miklum mæli óþekktur. Ástæðan er fyrst og fremst mikil og almenn notkun sparinautanna, þ.e. nautanna sem standa í fjósum víða um land og ætti eingöngu að nota á hátíðis- og tyllidögum eins og sagt er. Þessir hátíðisdagar íslenskra kúabænda eru of margir en af fæddum kálfum á árinu 2024 voru 30% undan sparinautum. Hlutfallið hefur þó, góðu heilli, heldur lækkað frá árinu áður þegar það stóð í rúmum 32%. Uppistaðan í þessum mikla fjölda er afkvæmi 1. kálfs kvígna því yfir 90% fæddra kálfa undan eldri kúm er undan sæðinganautum en innan við 30% kálfanna undan kvígunum.
Í pistli okkar fyrir um ári síðan gerðum við að umtalsefni að sæðinganautin eru valin undan bestu nautum og kúm landsins, arfgerðargreind, með reiknað erfðamat og hafa þar með fengið staðfest sín miklu gæði. Við minntumst einnig á að kynbótamatið er sett upp út frá hagrænu vægi eiginleika og á því að endurspegla nokkuð vel þá þætti sem bætt geta rekstur búsins. Það er því hægt að bæta rekstur búsins og afkomuna með kynbótum og þrátt fyrir að kynbætur séu langhlaup hefur erfðamengisúrval stytt vegalengdina umtalsvert. Í dag eru engar ástæður eða forsendur fyrir öðru en að hver og einn kúabóndi stundi markvissar kynbætur og í reynd er algjör fjarstæða að gera annað. Greinin getur ekki sótt aukna hagræðingu til annarra án þess að líta fyrst í eigin barm og spyrja fyrst hvort inn á við liggi ónotuð tækifæri.
Aukin ending
Ending kúnna virðist hægt og bítandi vera að aukast. Á árinu 2024 var meðalaldur við förgun 1.893,4 dagar og meðalfjöldi burða við förgun var 3,0. Þessar kýr höfðu að meðaltali skilað 18.394,6 kg mjólkur. Sambærilegar tölur fyrir árið 2023 voru 1.879,3 dagar, 2,96 burðir/kú og 17.817,4 kg mjólkur. Á þessu má sjá að kýrnar endast aðeins lengur og ná orðið þremur burðum að meðaltali. Afurðirnar aukast og koma þar bæði til fleiri lífdagar sem og auknar afurðir. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu jákvæð þróun þetta er.
Íslandsmet í meðalafurðum í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum
Á árinu 2024 reyndust kýr Aðalbjargar Rúnar Ásgeirsdóttur og Eyvindar Ágústssonar í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum með mestar meðalafurðir eftir árskú eða 9.084 kg. Slíkar afurðir hafa ekki áður sést hérlendis en þetta er í fyrsta skipti sem meðalafurðir almanaksársins ná yfir 9 þús. kg. Búið hefur síðustu þrjú árin verið afurðahæst eða með afurðahæstu búum í mánaðaruppgjörum skýrsluhaldsins og situr nú öðru sinni í röð í efsta sæti við áramótauppgjörið. Meðalnyt kúnna í Stóru-Mörk 1 jókst um 145 kg milli ára. Ekki verður annað sagt en að vel sé staðið að málum á þessu búi.
Annað í röð afurðahæstu búa landsins er Syðri-Hamrar 3 í Ásahreppi en þar stendur Helga Björg Helgadóttir fyrir búi. Kýrnar skiluðu 8.944 kg/árskú. Á Syðri-Hömrum 3 er legubásafjós með mjaltaþjóni og búið hefur verið ofarlega á listum yfir afurðahæstu bú landsins undanfarin misseri. Meðalnyt kúnna á Syðri-Hömrum 3 reyndist 897 kg meiri en árið áður.
Þriðja afurðahæsta bú ársins 2024 er Kolsholt í Flóa eða Villingaholtshreppi hinum forna. Þar er Hellisbúið ehf. skráð fyrir rekstri en forráðamenn eru Pia Rita Simone Schmauder og Brynjólfur Þór Jóhannsson. Kýrnar í Kolsholti skiluðu 8.686 kg mjólkur/árskú sem er 1.289 kg meiri meðalnyt en árið á undan. Á búinu er legubásafjós með mjaltaþjónum.
Í fjórða sæti varð bú sem Máreik ehf. rekur á Tannstaðabakka í Hrútafirði en með forráð fara Hermann Geir Karlsson og Sigrún Björg Kristinsdóttir. Kýrnar á Tannstaðabakka mjólkuðu til jafnaðar 8.667 kg/árskú sem er 471 kg meira en árið áður. Á búinu er legubásafjós með mjaltaþjóni. Fimmta búið í röð afurðahæstu búa ársins 2024 er Stóri-Dunhagi í Hörgárdal. Á þessu myndarbúi skiluðu kýrnar 8.558 kg/árskú sem er 746 kg meiri meðalnyt en árið á undan. Í Stóra-Dunhaga er legubásafjós með mjaltaþjóni.
Þessum búum til viðbótar náðu 18 bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Þeim búum hefur fjölgað um fimm frá árinu 2023.
Klauf 2487 í Lambhaga á Rangárvöllum með Íslandsmet
Nythæsta kýr landsins árið 2024 reyndist Klauf 2487 á Lambhagabúinu ehf. í Lambhaga á Rangárvöllum. Klauf mjólkaði 15.846 kg með 4,04% fitu og 3,05% próteini. Þetta er nýtt og stórglæsilegt Íslandsmet en meiri afurðir hafa ekki mælst úr íslenskri kú á einu almanaksári frá upphafi. Klauf er jafnframt fyrst íslenskra kúa til að ná yfir 15 þús. kg mjólkur á almanaksári. Hún er dóttir Stráks 10011 og bar sínum fjórða kálfi 3. desember 2023. Burðartími hennar féll því vel að almanaksárinu enda nást slíkar afurðir ekki án þess. Hæsta dagsnyt Klaufar á nýliðnu ári var 54,9 kg og hún var enn í 30 kg dagsnyt í desember síðastliðnum sem telja verður harla gott, 12 mánuðum eftir burð. Klauf er fædd í apríl 2018 og bar fyrsta kálfi rétt um tveggja ára aldur, eða 28. apríl 2020. Skráðar æviafurðir hennar voru 57.386 kg um síðustu áramót og á yfirstandandi mjólkurskeiði eru afurðirnar nokkru meiri en ársafurðirnar eða 16.886 kg mjólkur. Þess má svo geta að á síðasta mjólkurskeiði mjólkaði Klauf 17.063 kg.
Önnur í röðinni á nýliðnu ári var Snædís 1838 í Gunnbjarnarholti í Eystrihreppi eða Gnúpverjahreppi hinum forna, undan Stera 13057. Snædís mjólkaði 14.192 kg á árinu með 4,22% fitu og 3,36% próteini. Hún bar sínum þriðja kálfi 21. febrúar 2024. Hæsta skráða dagsnyt Snædísar var 55,1 kg í lok maí en hún heldur gríðarvel á sér, um nýliðin áramót var nytin 32,8 kg. Snædís fæddist 9. ágúst 2019 í Eystra-Fíflholti í Landeyjum og átti sinn fyrsta kálf 18. febrúar 2022. Skráðar æviafurðir við lok síðasta árs voru 31.735 kg mjólkur.
Þriðja í röðinni árið 2024 var Mu Mu 661 á Daufá í Skagafirði, undan Hálfmána 13022. Þessi kýr mjólkaði 13.965 kg á árinu með 3,67% fitu og 3,40% próteini en sínum þriðja kálfi bar hún 27. desember 2023. Hæsta dagsnyt hennar var 47,4 kg í lok janúar og í lok nóvember var hún enn í yfir 32 kg dagsnyt. Mu Mu er fædd 20. nóvember 2019 og bar sínum fyrsta kálfi 14. desember 2021. Skráðar æviafurðir hennar um síðustu áramót voru 34.363 kg.
Fjórða nythæsta kýrin var Ýma 896 á Tannstaðabakka í Hrútafirði. Ýma er, eins og nafnið bendir til, dóttir Ýmis 13051. Nyt hennar á árinu var 13.896 kg með 3,36% fitu og 3,15% próteini. Hún bar sínum öðrum kálfi 9. janúar 2024, fór hæst í 54,3 kg dagsnyt í lok mars og var enn í 27,5 kg dagsnyt um áramótin síðustu. Ýma er fædd 20. október 2020, átti sinn fyrsta kálf 4. nóvember 2022 og skráðar æviafurðir hennar um áramótin voru 25.148 kg.
Fimmta afurðahæsta kýrin að þessu sinni var Brúða 764 á Stakkhamri á Snæfellsnesi, dóttir Flatar 17005. Brúða er fædd 19. október 2019 og átti sinn fyrsta kálf 25. október 2021. Hún bar þriðja sinni 23. desember 2023. Brúða mjólkaði 13.727 kg á síðasta ári með 4,04% fitu og 3,28% próteini og hæsta skráða dagsnyt hennar var 47,3 kg. Um nýliðin áramót var hún enn í 25 kg dagsnyt. Nú um áramótin hafði Brúða skilað samtals 34.307 kg mjólkur.
Alls skiluðu 207 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 60 yfir 12.000 kg. Árið 2023 náðu 174 kýr nyt yfir 11.000 kg.
Íslandsmet í æviafurðum
Í lok október 2024 sló Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd Íslandsmetið í æviafurðum. Hún hafði um áramótin mjólkað samtals 116.121 kg en eldra Íslandsmet Mókollu 230 á Kirkjulæk var 114.635 kg. Bleik 995 er fædd 14. ágúst 2009 undan Grana 1528871-0982 Hersissyni 97033 og Stássu 873 dóttur Stássa 04024. Bleik bar sínum 1. kálfi 31. október 2011 og hefur borið ellefu sinnum síðan þá, eða alls 12 sinnum, nú síðast 12. ágúst síðastliðinn. Mestu afurðir á ári hingað til eru 10.372 kg árið 2016 en mestu mjólkurskeiðsafurðir 13.078 kg á því fimmta og næstmestar á ellefta mjólkurskeiði eða nákvæmlega 12 þúsund kg.
Önnur núlifandi kýr hefur náð þeim merka áfanga að mjólka meira en 100 þús. kg en það er Gullbrá 357 á Hóli á Upsaströnd. Hún hafði mjólkað 113.042 kg nú um síðustu áramót. Gullbrá er fædd 9. apríl 2004 á Hrafnsstöðum við Dalvík en flutti einungis nokkurra daga gömul að Hóli þar sem hún hefur haft aðsetur alla tíð síðan. Hún er undan Hvítingi 96032 og Rák 316, sonardóttur Búanda 95027. Gullbrá bar sínum fyrsta kálfi 10. október 2006 og hefur borið 10 sinnum síðan þá, nú síðast í júní 2022. Mestum afurðum á ári náði hún 2017 þegar hún mjólkaði 8.182 kg og 2020 náði hún 8.180 kg. Mestar afurðir á einu mjólkurskeiði eru á yfirstandandi skeiði eða 15.355 kg en það er orðið æði langt.
Ár framfara
Árið 2024 einkenndist af ákveðnum framförum í nautgriparæktinni. Innleiðingu erfðamengisúrvals, sem hófst undir lok ársins 2022, var fram haldið. Smám saman hefur nautavalið tekið breytingum og þá einkum og sér í lagi hvað snertir ættliðabilið. Þannig eru nú að koma naut á stöð sem eru synir nauta sem valin voru á grunni erfðamats. Þá bera niðurstöður skýrsluhaldsins með sér að bæði kýr og bændur ná stöðugt meiri árangri þar sem Íslandsmetin falla hvert af öðru.
Arfgerðargreiningar eru orðnar fastur liður í ræktunarstarfinu og skýrsluhaldinu og allir arfgerðargreindir gripir fá erfðamat innan nokkurra vikna frá fæðingu. Þetta hjálpar til í ræktunarstarfinu og er góður stuðningur við val á foreldrum næstu kynslóðar. Þegar þetta er skrifað er búið að arfgerðargreina rétt tæplega 36 þús. gripi. Þar af eru rétt um 23 þús. gripir fæddir á árunum 2022 til 2024 og á enn eftir að fjölga. Þátttakan í arfgerðargreiningunum verður að teljast ákaflega góð en af kvígum fæddum 2023 hafa 8.777 verið arfgerðargreindar, sem er um 78% allra lifandi fæddra kvígna það ár. Þessi góða þátttaka rennir styrkum stoðum undir erfðamengisúrvalið en á sama tíma verður einnig að hafa í huga að önnur grunnstoð þess er afurðaskýrsluhaldið. Gott og vel framkvæmt skýrsluhald er lykilatriði til þess að geta nýtt arfgerðargreiningar í kynbótastarfinu en erfðamatið byggir á tengingu arfgerða við svipfar. Svipfar er ekkert annað en upplýsingar um gripina og afurðir þeirra og það skiptir höfuðmáli að þær upplýsingar séu sem mestar og bestar á hverjum tíma.
Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum og Lambhaga á Rangárvöllum, óskum við til hamingju með stórglæsilegan árangur og þökkum gott samstarf á nýliðnu ári.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2024
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2024 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.
Uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna nær til þeirra búa sem halda holdakýr. Enn er þetta yfirlit þeim annmörkum háð að niðurstöðurnar ná ekki yfir þær holdakýr sem haldnar eru á búum þar sem einnig er um að ræða mjólkurframleiðslu. Þetta hefur sína kosti og galla. Kosturinn er sá að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn er sá að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.
Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2024 nær til 112 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 90. Búunum fækkar því um tíu milli ára og búum þar sem er að finna holdakýr ef erlendu kyni fækkar um tvö. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 3.294 talsins, sem er fækkun um 151 frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 29,4 samanborið við 28,2 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 27,7 árskýr á bú en voru 25,8 árið 2023. Alls var um að ræða 2.719 skráða burði á þessum búum á árinu 2023 sem jafngildir 0,83 burðum/kú. Þetta er fjölgun um 13 burði og aukning um 0,04 burði á kú milli ára.
Tafla 1: Ársuppgjör nautakjötsframleiðslunnar 2024 sjá tengil neðst í fréttinni.
Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2024
Heildarframleiðsla ársins á þessum 112 búum nam um 840 tonnum og því nær uppgjörið til 6 tonnum minna kjöts en árið áður. Þetta þýðir að þessi bú framleiða nálægt 17% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 7.501 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 3.174. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 6.934 kg og 3.242 gripir. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 227,1 kg, en hann reyndist 225,6 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 273,9 kg en þau vógu til jafnaðar 267,9 kg 2023. Til jafnaðar var ungneytunum fargað 699,8 daga gömlum eða 21,5 dögum yngri að meðaltali en á árinu 2023. Það jafngildir vexti upp á 381,3 g/dag, reiknuðum út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 343,7 g/dag. Til samanburðar var slátrað 9.558 (9.553) ungneytum á landinu öllu sem vógu 257,1 (256,4) kg að meðaltali við 732,0 (743,1) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2023. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum þyngri við lægri aldur að jafnaði, eins og undanfarin ár, og fer bilið vaxandi. Heilt yfir eru ungneyti þyngri en árið áður þrátt fyrir að vera alin aðeins færri daga.
Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 6,3 (6,1) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 5,0 (4,9). Flokkun er því mun betri á þessum búum til jafnaðar, rétt eins og árið áður, og sá munur fer vaxandi. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á landinu öllu er því nálægt því að flokkast í O.
Frjósemi
Á árinu 2024 fæddust 2.719 kálfar á þessum búum og reiknast meðalbil milli burða 457 (451) dagur. Bil milli burða er því nálægt 15 mánuðum sem er töluvert lengra en svo að meðalkýrin nái einum burði á ári. Framleiðsla nautakjöts með holdakúm verður tæpast arðbær hérlendis nema að þessi þáttur taki breytingum til batnaðar. Við þetta bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 12,2% (14,1%), 4,3% (4,7%) við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 2,6% (3,3%) þannig að fjöldi kálfa til nytja verður töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári. Í heildina dregur umtalsvert úr vanhöldum sem er af hinu góða.
Notkun sæðinga á þessum búum jókst aðeins milli ára. Þannig voru sæddar 476 kýr á árinu 2024 samanborið við 451 kú árið áður. Hlutfall sæddra kúa hækkar því í 14,5% úr 13,1%. Fjöldi sæddra kúa af erlendu kyni var 408 af þessum 451 sem sæddar voru. Til jafnaðar voru kýrnar sæddar 1,3 (1,3) sinnum og að meðaltali liðu 108,6 (103,4) dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar þetta löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili. Þetta er þáttur sem gefa þarf betri gaum.
Tölum úr skýrsluhaldinu ber saman við afkomutölur. Búum fer nú fækkandi, meðalbúið stækkar og þau bú sem notfæra sér Angus-erfðaefnið eru greinilega að ná stórstígum framförum.
Árangur einstakra búa
Það bú sem náði mestum meðalþunga gripa á nýliðnu ári var Breiðaból á Svalbarðsströnd þar sem meðalfallþungi 32 gripa var 382,6 kg. Annað búið á þessum lista er Nýibær undir Eyjafjöllum með meðalfallþunga upp á 378,0 kg og þriðja í röðinni er Saurbær í Skagafirði þar meðalfallþunginn var 363,9 kg. Í töflu 2 má sjá þau 10 bú sem náðu mestum meðalfallþunga á árinu 2024.
Eitt er að ná sláturgripum þungum, annað er að ná þeim sem þyngstum á sem skemmstum tíma. Góður mælikvarði á það er vaxtarhraði. Í töflu 3 er listi yfir þau bú sem náðu mestum meðalvaxtarhraða gripa á árinu 2024 og er meðalvöxturinn reiknaður út frá aldri og fallþunga.
Kjötmatið á að gefa góða vísbendingu um kjötgæði og í töflu 4 er að finna lista yfir þau bú sem náðu hæstri einkunn í holdflokkun á árinu 2024. Þar er eins og svo oft holdflokkun umreiknuð í eina tölu þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14.
Mestur þungi og vöxtur
Þyngsta ungneytið, þ.e. gripur á aldursbilinu 365 til 730 daga (12-30 mán.), sem slátrað var árinu 2024 var naut nr. 236 í Hægindi í Reykholtsdal. Þessi gripur var holdablendingur, 71% Angus, 6% Limousine, 6% Galloway og 17% íslenskur, undan Erpi 20402 og vóg 460,6 kg er honum var slátrað við 644 daga aldur. Hann flokkaðist í UN R3+. Í töflu 5 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 425 kg fallþunga á árinu 2024 en þau voru þrettán talsins og frá fjórum búum. Þetta eru allt gripir sem hafa náð sérlega miklum vexti og þar með þunga en athygli vekur að þarna skila nýju Angus-nautin ákaflega góðu. Rétt er að benda á að naut nr. 16378711204 í Nýjabæ sem á nokkra syni þarna í töflunni var sonur Vísis-ET 18400.
Í töflu 6 má sjá þau ungneyti sem náðu mestum daglegum vexti reiknuðum út frá fallþunga. Miðað er við að gripirnir hafi náð a.m.k. 450 daga aldri við slátrun og reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestum eða hröðustum vexti ársins náði naut númer 1495 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Sá gripur var holdablendingur, 61% Angus, 28% íslenskur og 11% Limousine. Vöxtur þessa grips reiknast miðað við áðurnefndar forsendur 760,5 g/dag sem er geysigóður vöxtur. Aðrir bæir sem hér koma við sögu eru Reykir og Hofsstaðasel í Skagafirði og Grænahlíð í Eyjafirði.
Þessar tölur og listar yfir þá gripi sem eru þyngstir og ná mestum vexti sýna vel hve holdablendingarnir skara fram úr, einkum og sér í lagi synir og afkomendur yngri Angus-nautanna frá einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Allir gripirnir í töflum 5 og 6 eru synir eða sonarsynir þeirra nauta. Þá verður ekki hjá því komist að nefna þann glæsilega árangur sem náðst hefur í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Ef rýnt er í tölur má glöggt sjá að stefnan er að framleiða gripi sem skila miklum vexti og kjötgæðum en ekki endilega gríðarmiklum þunga. Fremur er horft til þess að gripirnir nái góðum sláturþunga á þeim tíma sem hentar og ekki þurfi að ala þá nema einn vetur á húsi.
Ef við skoðum meðfylgjandi graf sjáum við að afkvæmi Angus-nautanna frá NAUTÍS ná meiri þunga á styttri tíma, þ.e. þau vaxa hraðar en önnur ungneyti sem slátrað var á síðasta ári. Þegar reiknaður er meðalvaxtarhraði á dag út frá fallþunga kemur í ljós að afkvæmi nýju Angus-nautanna uxu sem nam 454,0 g/dag meðan önnur ungneyti náðu vexti sem nam 316,1 g/dag. Þarna munar tæplega 140 grömmum á dag sem þýðir að á einni viku ná afkvæmi hreinræktuðu Angus-nautanna um 1 kg meira af kjöti en hinir gripirnir.
Tölur ársins 2024 gefa til kynna að eldi sláturgripa tekur framförum og vegur þar tilkoma nýja Angus-erfðaefnisins án efa þungt en tilkomu þess er farið að gæta svo um munar í sláturtölum. Hins vegar er breytileikinn alltof mikill eins og grafið sýnir okkur þar sem mikill fjöldi ungneyta nær ekki 200 kg fallþunga við slátrun. Það vantar því töluvert upp á að eldi gripa til kjötframleiðslu sé nægilega gott þó töluverður hópur nái orðið mjög góðum árangri á því sviði.
Að lokum er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2024
Síminn hjá okkur er opinn kl. 09.00–12.00 og 13.00–16.00 alla virka daga nema föstudaga, þá er opið 9-12.