Ársuppgjör - niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2014

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2014 hafa verið reiknaðar og birtar á vef okkar. Þeir framleiðendur sem skiluðu afurðaupplýsingum á árinu voru 579 en á síðasta ári voru þeir 584. Virkir skýrsluhaldarar voru 575 við lok ársins 2014 og skýrsluskil voru 99% þegar gögnin voru tekin út á síðastliðnu miðnætti, aðfaranótt 23.janúar.
Niðurstöðurnar eru þær helstar að 23.861,3 árskýr skiluðu 5.721 kg nyt að meðaltali. Það er hækkun um 100 kg frá árinu 2013 en þá skiluðu 22.879 árskýr meðalnyt upp á 5.621 kg. Til samanburðar má geta þess að árið 2012 var sambærileg tala 5.606 kg. Við uppgjör ársins 2013 höfðu því meðalafurðirnar aukist um 15 kg frá árinu þar á undan. Mestar meðalafurðir nú voru í Austur-Skaftafellssýslu, 6.302 kg eftir árskú. Meðalnytin var hins vegar mest í Skagafirði bæði árin 2012 og 2013. Meðalbústærð reiknaðist 41,2 árskýr á árinu 2014 en sambærileg tala var 38,5 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 54,2 kýr en 2013 reiknuðust þær 52,8.

Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2014, var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, A-Hún., 7.896 kg á árskú. Það bú var einnig efst á þessum lista eftir árið 2013. Annað búið í röðinni eftir árið 2014 var bú Félagsbúsins í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum, Rang. en þar var meðalnytin 7.832 kg eftir hverja reiknaða árskú. Þriðji í röðinni að þessu sinni var Kristján Hans Sigurðsson í Lyngbrekku á Fellsströnd í Dölum en hver árskýr hans skilaði að meðaltali 7.807 kg mjólkur. Fjórði á listanum var Pétur Friðriksson á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd en meðalárskýrin í fjósi hans skilaði 7.744 kg árið 2014. Fimmta búið nú var Félagsbúið á Espihóli í Eyjafirði en þar var meðalnyt árskúnna 7.701 kg. Sjötta í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Þar voru meðalafurðirnar 7.636 kg eftir árskú. Sjöunda var bú Valdimars Óskars Sigmarssonar í Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagafirði þar sem meðalárskýrin mjólkaði 7.546 kg síðasta ár. Númer átta að þessu sinni var bú Sigurður og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd en meðalafurðir árskúnna þeirra voru 7.507 kg. Níunda í röðinni var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði, S-Þing. en þar var nytin 7.491 kg eftir árskú. Tíunda var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal, Eyj. þar sem meðalárskýrin skilaði 7.483 kg á síðasta ári. Þeim sem fylgst hafa með á þessum vettvangi undanfarin ár mun fátt á þessum lista koma á óvart, hér er um að ræða bú sem hafa staðið ofarlega í afurðum undanfarin ár.

Á 31 búi reiknaðist meðalnyt árskúa yfir 7.000 kg árið 2014 en 26 bú náðu því marki árið 2013.

Nythæsta kýrin á skýrsluhaldsbúunum árið 2014 var Laufa 1089 í Flatey á Mýrum við Hornafjörð, undan Fróða 96028. Hún skilaði 13.121 kg nyt á árinu með 3,19% af próteini og 3,33% af fitu. Önnur í röðinni var Stytta 336 í Kotlaugum í Hrunamannahreppi, Árn., dóttir Öðlings 03002. Nyt hennar var 12.700 kg með 3,40% prótein og 4,19% fitu. Þriðja nythæsta kýrin nú var Drottning 324 í Geirshlíð í Flókadal í Borgarfirði, undan Fonti 98027 en hún skilaði 12.567 kg á árinu með 3,30% próteini og 4,69% fitu. Fjórða efsta kýrin að þessu sinni var Agla 361 í Viðvík í Viðvíkursveit í Skagafirði, dóttir Þrasa 98052. Hún mjólkaði 12.261 kg á nýliðnu ári með 3,29% af próteini og 4,06% af fitu. Fimmta í röðinni var Ausa 306 í Garðakoti í Hjaltadal í Skagafirði, dóttir Þverteins 97032 sem skilaði 12.198 kg með 3,15% próteini og 3,50% fitu. Alls mjólkuðu 22 kýr yfir 11.000 kg á síðasta ári, þar af 7 sem skiluðu yfir 12.000 kg og ein þeirra, fyrrnefnd Laufa yfir 13.000 kg eins og fram hefur komið. Árið 2013 skiluðu 8 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af ein yfir 12.000 kg. Árið 2012 náðu 14 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Töflurnar með uppgjörinu má finna hér

/sk