Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2017
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2017 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér á eftir verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 581 en á árinu 2016 voru þeir 575. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 26.352,1 árskýr skilaði 6.159 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 30 kg frá árinu 2016 en þá skiluðu 24.999,2 árskýr meðalnyt upp á 6.129 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og annað árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Þessi afurðaaukning er mjög athyglisverð í ljósi þess að nú eru allir mjólkurframleiðendur í skýrsluhaldi og árskúm fjölgaði milli ára um nálægt 1.350 talsins, einkum vegna þess.
Mestar meðalafurðir 2017 voru í Skagafirði eða 6.537 kg eftir árskú. Meðalbústærð reiknaðist 45,4 árskýr á árinu 2017 en sambærileg tala var 43,5 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 60,9 kýr en 2016 reiknuðust þær 59,5.
Þátttaka í skýrsluhaldi 100%
Á árinu 2017 tók gildi sú breyting að afurðaskýrsluhald er nú skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfskilyrði í nautgriparækt. Þetta þýðir að skýrsluhald er í raun og veru skylda fyrir alla framleiðendur mjólkur og nautakjöts, í það minnsta ætli menn að halda gripa- og beingreiðslum. Vegna þessa er þátttaka í skýrsluhaldi nú í fyrsta skipti í sögunni 100% og er höfundum þessarar greinar ekki kunnugt um það að hafi nokkurn tímann átt sér stað í nokkru öðru landi í heiminum. Þær tölur sem hér eru birtar eru því einsdæmi í þeim skilningi.
Mestar meðalafurðir voru í Skagafirði
Þegar litið er á niðurstöður eftir svæðum kemur í ljós að í Skagafirði eru meðalafurðir mestar, 6.537 kg eftir árskú, en skammt undan er Eyjafjörður með 6.452 kg á árskú. Þriðja sæti verma Austfirðingar en þar skilaði árskýrin að meðaltali 6.412 kg. Stærst voru búin í Eyjafirði, 55,1 árskýr en minnst í Vestur-Skaftafellssýslu 28,0 árskýr.
Meðalbúið aldrei stærra
Meðalbúið stækkaði milli ára enda jókst innlegg mjólkur milli ára og innleggjendum fækkaði heldur. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 262.961 lítrum samanborið við 250.182 lítra á árinu 2016. Þetta er aukning upp á rúm 5%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um sjö og voru kúabú í framleiðslu 573 talsins nú um áramótin 2017/18.
Mestar meðalafurðir á Brúsastöðum í Vatnsdal
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2017, var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, 8.937 kg á árskú. Þó ekki sé um Íslandsmet að ræða að þessu sinni var nærri ársgömlu meti sama bús hoggið en það er 8.990 kg. Búið á Brúsastöðum var einnig afurðahæsta búið árið áður auk þess sem það vermdi efsta sæti listans árin 2013 og 2014. Þessi árangur þeirra hjóna Gróu Margrétar Lárusdóttur og Sigurðar Eggerz Ólafssonar á Brúsastöðum undanfarin ár er stórglæsilegur og allrar athygli verður. Eins og nefnt var í fyrra í þessari sömu yfirferð hlutu þau m.a. Landbúnaðarverðlaunin 2015 og aftur má taka undir orð þáverandi landbúnaðarráðherra við afhendingu verðlaunanna um að búinu sé sinnt af miklum myndarskap, jafnt hvað umhirðu og góðan árangur varðar en jafnframt og ekki síður hvað ytra umhverfi og ásýnd viðkemur. Annað búið í röðinni árið 2017 var bú þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal en þar var nytin 8.356 kg eftir árskú. Þriðja í röðinni við uppgjörið nú var bú Gautsstaða ehf. á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd en þar var meðalnyt árskúnna 8.269 kg. Í fjórða sæti var bú Ingimars Jónssonar á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.205 kg. Fimmta búið var bú Gunnbjarnar ehf. á Skáldabúðum í Gnúpverjahreppi hinum forna eða Eystrihreppi eins og hann var áður nefndur og er jafnvel enn meðal staðkunnugra og þeirra er á svæðinu búa. Meðalnytin þar var 8.183 kg eftir árskú. Næsta bú, hið sjötta á listanum, var bú Hvanneyrarbúsins ehf. á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði með meðalafurðir upp á 8.180 kg eftir árskúna. Sjöunda og síðast þeirra sem náðu meðalafurðum yfir 8.170 kg/árskú var félagsbú þeirra Ingimundar Vilhjálmssonar og Sigurður Sigurjónssonar í Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist 8.179 kg. Á 85 búum reiknaðist meðalnyt árskúa yfir 7.000 kg árið 2017, á 80 búum árið 2016 en 51 bú náði því marki árið 2015.
Kýr nr. 851 á Innri-Kleif í Breiðdal mjólkaði mest og setti nýtt Íslandsmet
Nythæsta kýrin á landinu árið 2017 var kýr nr. 851, undan Ými 0715 Skandalssyni 03034, en hún mjólkaði 14.199 kg með 3,64% fitu og 3,33% prótein og sló þar með ársgamalt Íslandsmet Nínu 676 á Brúsastöðum í Vatnsdal sem var 13.833 kg. Burðartími 851 féll mjög vel að almanaksárinu en hún bar sínum þriðja kálfi 2. janúar 2017. Því miður þurfti svo að fella þennan mikla afurðagrip núna í byrjun janúar og er þar skarð fyrir skildi. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með að kýr nr. 851 var gríðarmikil mjólkurkýr og sýndi það strax á sínu fyrsta mjólkurskeiði er hún fór hæst í 37 kg dagsnyt. Á nýliðnu ári fór hún hæst í 57,0 kg dagsnyt og var enn í 28 kg nyt í desember s.l. Skráðar æviafurðir hennar voru 33.661 kg um síðustu áramót en sinn fyrsta kálf átti hún 26. janúar 2015, þá 26 mánaða að aldri.
Önnur í röðinni árið 2017 var Fura 1524 á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði, undan Þvala 10008, en hún mjólkaði 13.146 kg með 3,54% fitu og 3,12% prótein. Þessi kýr bar sínum þriðja kálfi 22. janúar 2017 og fór hæst í 47,1 kg dagsnyt á árinu 2017. Skráðar æviafurðir hennar eru 30.306 kg. Þriðja nythæsta kýrin var Skauta 659 á Böðmóðsstöðum 2 í Laugardal, undan Tópasi 03027, en nyt hennar á árinu var 13.132 kg með 4,13% fitu og 3,37% prótein. Hún bar sínum þriðja kálfi á aðfangadag jóla 2016, fór hæst í 57,6 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 30.822 kg. Fjórða nythæsta kýrin var Súla 896 á Halllandi á Svalbarðsströnd, sonardóttir Karra 06007, en hún mjólkaði 13.062 kg með 3,87% fitu og 3,42% prótein. Hún bar sínum fjórða kálfi á Þorláksmessudag 2016, fór hæst í 43 kg dagsnyt á árinu og skráðar æviafurðir eru 42.805 kg. Fimmta í röðinni var Lotta 564 á Kúskerpi í Blönduhlíð í Skagafirði, dóttir Lykils 02003. Lotta bar sínum sjötta kálfi 30. október 2016 og fór hæst 44 kg dagsnyt á mjólkurskeiðinu en hún skilaði 13.022 kg á árinu með 3,24% fitu og 3,35% prótein. Skráðar æviafurðir Krónu eru 54.238 kg.
Alls skiluðu 77 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 27 yfir 12.000 kg. Árið 2016 náði 71 kýr nyt yfir 11.000 kg.
Af þeim kúm sem enn eru á lífi í dag státar nú Vorkoma 534 í Garði í Eyjafirði af mestum æviafurðum eða 93.454 kg. Þessi kýr er fædd á Torfufelli í Eyjafirði 7. maí 2004, dóttir Prakkara 96007, en flutti aðsetur sitt að Garði strax að lokinni mjólkurfóðrun eða við þriggja mánaða aldur. Hún er því á sínum 15. vetri en fyrsta kálfi bar hún 24. september 2006 og hún bar 10. sinni á nýársdag 2017. Mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2014 þegar hún mjólkaði 9.405 kg en afurðamesta mjólkurskeið hennar, í það minnsta hingað til, var það þriðja þegar hún mjólkaði 11.332 kg.
Skammt á eftir Vorkomu í æviafurðum er Braut 112 á Tjörn á Skaga, dóttir Stígs 97010. Braut er fædd 12. september 2005 og átti sinn fyrsta kálf 23. október 2007 en alls hefur hún borið 10 sinnum að meðtöldum tveimur fósturlátum. Þrátt fyrir þau áföll er Braut nú búin að mjólka 91.300 kg mjólkur en mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2011, 10.961 kg. Mestum afurðum á einu mjólkurskeiði, í það minnsta hingað til, náði hún á því fimmta, 14.630 kg. Endist þessum kúm aldur og heilsa til gætu þær rofið 100 þús. kg múrinn á komandi misserum en þær eru báðar með fangi og eiga að bera með vorinu. Rétt er að geta þess að mjög fáar íslenskar kýr hafa náð 100 þús. kg æviafurðum enda hlýtur það að teljast allmikið afrek í stofni þar sem meðalafurðir á ári eru ríflega 6.000 kg og afurðahæstu kýr mjólka 13-14 þús. kg. Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, Snarfaradóttir 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 117.635 kg.
Á síðastliðnu ári var ein af þeim afrekskúm sem oft hefur prýtt lista afurðahæstu kúa landsins felld. Laufa 1089 í Flatey í Hornafirði var felld í desember s.l. og hafði þá mjólkað frá því í september 2005 er hún bar sínum fyrsta kálfi. Laufa var fædd 8. apríl 2004 í Einholti í Hornafirði, dóttir Fróða 96028, en flutti í Flatey 2008. Skráðar æviafurðir hennar eru 91.720 kg á 11 mjólkurskeiðum. Toppnum náði hún á 8. mjólkurskeiði er hún mjólkaði 13.534 kg en mestu afurðir á einu almanaksári voru 13.121 kg árið 2014 en það ár náði hún sinni mestu dagsnyt, 49 kg, og stóð afurðahæst allra kúa á landinu.
Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Brúsastöðum og Innri-Kleif, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum samstarfið á liðnu ári.
Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar
gj/sk