Arfgerðargreiningar gagnvart mótstöðu við riðu í sauðfé

Um allangt skeið hefur verið hægt að arfgerðagreina kindur til að athuga hversu mikla mótstöðu þær hafa gagnvart riðuveiki. Þannig hafa allir hrútar sem notaðir hafa verið til sæðinga í meira en 20 ár verið greindir. Þá hefur ákveðinn hópur bænda látið greina sína ásetningshrúta árlega. Með þessum hætti geta bændur unnið að því í gegnum kynbætur að minnka tíðni áhættuarfgerðarinnar og auka tíðini lítið næmu arfgerðarinnar í sínum stofni og efla þannig varnir gegn riðuveiki. Óhætt er að hvetja sem flesta bændur til að huga að þessu. Fyrir þá sem búa á svæðum sem eru skilgreind sem „sýkt svæði“ þá er fengur í því að auka mótstöðu sauðfjárins. Þá er líka full ástæða fyrir þá sem rækta fé á sölusvæðum að leggja stund á arfgerðagreiningar þannig að úrval gripa með lítið næma arfgerð aukist og jafnframt að minnka líkur á því að verið sé að selja gripi með áhættuarfgerð inn á sýkt svæði.

Hægt er að leita aðstoðar hjá RML vegna sýnatöku fyrir arfgerðagreiningar gagnvart riðumótstöðu. RML getur útvegað bændum sýnatökuefni og/eða annast sýnatöku óski menn þess. Ef bændur kjósa að fá sýnatökuefni í gegnum RML kostar hver DNA greining 5.500 kr. án vsk. og sér þá RML um að senda sýnin til greiningar hjá Matís og skrá niðurstöður í Fjárvís.is. Ef menn óska jafnframt eftir því að sýnatakan sé framkvæmd af starfsmönnum RML er sú vinna unnin á tímagjaldi samkvæmt verðskrá.

/okg