Arfgerðargreiningar - DNA sýnataka sauðfjár haustið 2022

Opnað hefur verið fyrir pantanir vegna DNA sýnatöku úr sauðfé fyrir haustið 2022. Hægt er að panta hér í gegnum vef rml (sjá slóð hér neðst á síðunni). Meðfylgjandi er hagnýtar upplýsingar varðandi framkvæmd sýnatöku í haust. Til að markmið um snögga afgreiðslu á greiningum náist er mikilvægt að bændur panti með fyrirvara og skili síðan inn sýnum sem fyrst.

Þeir sem panta til og með 25. ágúst verða í forgangi með að komast að í greiningu, ef þörf verður á því að forgangsraða. Einnig verður tekið tillit til þess í hvaða röð bændur hafa pantað, ef á þarf að halda við forgangsröðun.

  • Bændur munu geta valið hvort þeir taka stroksýni, sem greind verða hjá Matís (Íslandi) eða taka vefjasýni með hylkjum sem yrði send til greiningar hjá Agrobiogen (Þýskalandi).
  • Sama hvor leiðin er valin, kostar hver greining með sýnatökubúnaði 3.000 kr + vsk. og gefin verður upp greining fyrir 6 sæti á príongeninu (136, 137, 138, 151, 154, 171).
  • Sýnatökubúnaður verður aðgengilegur á ákveðnum starfsstöðum RML – bændur sækja þann búnað sem þeir hafa pantað (hylki eða stroksýnapinna á næstu starfsstöð RML) – þetta verður auglýst betur síðar, hvar og hvenær búnaðurinn verður klár.
  • Bændur eru hvattir til að taka sýnin sjálfir, en einnig er hægt að kaupa þá þjónustu hjá RML.
  • Þegar bóndinn tekur sýnin fyllir hann jafnframt út fylgiblað til þess að tryggja að til sé skrá yfir hvaða sýni og gripur tengjast saman.
  • Bóndinn skráir síðan sýnanúmer á viðkomandi gripi í Fjárvís. Ef bóndi hefur ekki tök á að skrá sýnanúmerin í Fjárvís, verður hægt að kaupa þá þjónustu af RML samkvæmt tímagjaldi.
  • Bóndinn sendir sýnin til greiningar og lætur fylgiblaðið fylgja með. Mikilvægt er að búið sé að skrá sýnin í Fjárvís áður en sýnin og sýnatökublaðið er sent.
  • Stroksýni (stroka úr nefi með bómullarpinnum) skulu bændur senda rakleitt til Matís: Matís, bt. Steinunn Magnúsdóttir, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík.
  • Hylkin sem lagt er upp með að fari út til Þýskalands í greiningu, skal senda á starfsstöð RML á Hvanneyri (RML, V/DNA sauðfé, Hvanneyrargötu 3, 311 Borgarnesi).
  • Þegar niðurstöður berast frá greiningaraðila til RML verða niðurstöðurnar lesnar jafn óðum inn í Fjárvís, ekki er gert ráð fyrir að senda þær í pósti. Þjónusta við að útbúa niðurstöður og senda í pósti verður í boði gegn gjaldi.
  • Markmiðið er að koma niðurstöðum sem hraðast til bænda (birt í Fjárvís).
  • Hjá Matís er lagt upp með að skila niðurstöðum eftir viku frá því að þeim berst sýnin í hendur. Ef álagið verður umfram það sem fyrirtækið annar á einni viku verður horft til forgangsröðunar samkvæmt því hvenær bændur pöntuðu.
  • Sýni verða send út til Þýskalands reglulega í september og fram í október. Niðurstöður eru væntanlegar vikulega upp úr miðjum september og út október.
  • Ef pantanir gefa til kynna að álagið verði mjög ójafnt á fyrirtækin og fyrirsjáanlegt að það sé meira en hægt er að anna innan sláturtíðar verður reynt að jafna álaginu svo greiningar gangi sem hraðast fyrir sig.

Sjá nánar: 
Panta sýnatöku

/okg