Arfgerðargreiningar sauðfjár, staða mála

Eftir að nýja pöntunarkefið komst í gagnið er búið að senda út 73.132 hylki fyrir arfgerðagreiningu sauðfjár og þar er mjög gleðilegt hvað bændur eru áhugasamir um þátttöku í þessu mikilvæga verkefni. Öll þessi hylki eru forskráð beint inn á hvert bú í Fjárvís og hægt að tengja þau við gripi undir flipanum Skráning “Forskrá DNA sýnanúmer“, eða á forsíðu Fjárvís undir Haustbók “DNA forskráning“.

 

           

 

Greiningar eru farnar af stað og einhverjir bændur nú þegar búnir að fá sínar niðurstöður. Einhver sýni kunna að vera tóm eða illgreinanleg og koma því mögulega ekki niðurstöður á öll sýnin í einu. Sú sýni sem sannarlega eru tóm eða ónýt munu vera merkt sérstaklega eins og áður.

Við viljum nota tækifærið og ítreka fyrir bændum að forskrá sýnin á rétta gripi. Það er mikilvægt að skrá burð á þeim lömbum sem búið er að taka sýni úr áður en sýnin eru send í greiningu. Það auðveldar ferlið mikið þegar niðurstöðurnar koma að hægt sé að tengja þær beint á rétta gripi.

Við biðlum til bænda að sýna þolinmæði, hægt er að fylgjast með stöðu sýna inni í Fjárvís undir flipanum „staða“ í sýnleit. Það bíður mikill fjöldi greiningar og allt hefur sinn tíma og gang.

Nú er um að gera að ganga frá sýnum og senda á móttökustarfsstöð RML. Bændur á Norður- og Vesturlandi til RML, Hvanneyrargötu 3, 311 Borgarnesi og bændur á Suður- og Austurlandi til RML, Höfðabakka 9, 110 Reykjavík

Ef að bændur lenda í einhverjum vandræðum við skráningu, ekki hika við að hafa samband við okkur hjá RML. Senda má fyrirspurn á dna@rml.is eða hringja í 516-5000.