Afsláttur hjá Efnagreiningu ehf á Hvanneyri fyrir „pakka“bændur hjá RML

Það er ákaflega mikilvægt  að  bændur hafi gott yfirlit yfir efnainnihald heyja, jarðvegs og búfjáráburðar. Þannig er hægt að stuðla að hollum og góðum afurðum sem og heilbrigðum bústofni og einnig til að viðhalda góðri jarðrækt og nýta þannig verðmæt næringarefni sem best og draga úr sóun sem er sérstaklega mikilvægt þegar horft er til kolefnisspors landbúnaðarins. 

Undanfarin ár hefur RML boðið bændum uppá skilgreinda ráðgjafarpakka þar sem leitast er eftir að hafa góða yfirsýn yfir næringarefnastöðu heyja, jarðvegs og búfjáráburðar. Þetta eru „Stabbi“ og „Stæða“ sem eru fóðurráðgjafarpakkar og „Sproti“ sem er jarðræktarpakki sem inniheldur m.a. áburðaráætlun.
Nýverið gerðu RML og Efnagreining ehf á Hvanneyri með sér samkomulag um að bændur sem verða þátttakendur í einum eða fleirum af þessum ráðgjafarpökkum í haust og fram á næsta vor muni njóta sérstakra afslátta á efnagreiningum hjá Efnagreiningu á Hvanneyri. Afslættirnir eru settir upp með það að markmiði að bændur taki fleiri sýni en ella væri og fái þannig sem best yfirlit yfir hey, jarðveg og/eða búfjáráburð. Þannig verður ráðgjöfin í pökkunum byggð á betri og ítarlegri upplýsingum en annars gæti orðið.

Afslættirnir á efnagreiningunum eru þannig að 50% afsláttur er af 5. sýni og 10. sýni verður frítt. Þá er auk þess 10% afsláttur af sýnum frá 7, 8 og 9 og 15% á hverju sýni umfram 10 sýni. Afslættirnir miðast við ódýrasta sýnið hvort sem það er úr heyi, jarðvegi eða búfjáráburði.
Bændur eru hvattir til að kynna sér vel hvað innifalið er í ráðgjafarpökkunum hér. Þeir sem hafa áhuga geta síðan skráð sig með tengli neðst á upplýsingasíðu „pakkanna“ eða með því að hringja í eða senda póst á Eirík Loftsson el@rml.is eða Borgar Pál Bragason bpb@rml.is sem veita nánari upplýsingar.
Mikilvægt er að skrá sig sem fyrst og eigi síðar en um næstu mánaðarmót til að virkja afsláttakjörin og til að hægt sé að skipuleggja sýnatöku hjá þeim sem þess óska.

 Borgar Páll/Helga