Afkoma nautakjötsframleiðenda 2021-2023

Nautið Janssen í eigu Rúnars Þórs Ragnarssonar sem rekur bú með holdanaut á Steinsstöðum og Efstalan…
Nautið Janssen í eigu Rúnars Þórs Ragnarssonar sem rekur bú með holdanaut á Steinsstöðum og Efstalandi í Öxnadal. Mynd: Rúnar Þór Ragnarsson.

Komin er út skýrsla um rekstur og afkomu í nautaeldi fyrir árin 2021-2023 en hún byggir á gögnum frá 37 nautgripabúum. Á árinu 2023 var nautakjötsframleiðslan á þessum búum samtals um 22% af framleiðslu nautakjöts á landvísu.

Skýrslan lýsir mjög jákvæðri þróun í afkomu búanna á tímabilinu. Þegar upp er staðið ná afurðatekjur þó ekki að mæta framleiðslukostnaði að fullu. Eins og áður er áberandi hvað bændur eru að reikna sér lág laun miðað við vinnuframlag.

Skv. gögnunum var rekstrarafgangur fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) jákvæður um 14 kr./kg kjöts árið 2021 en um 366 kr./kg árið 2023. Munar þar verulega um hækkað afurðaverð og einskiptisgreiðslur úr ríkissjóði á móti auknum framleiðslu- og rekstrarkostnaði. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða var rekstrarniðurstaða ársins 2023 neikvæð um 99 kr./kg. Sem fyrr segir er það mun betri niðurstaða en fyrir undanfarin ár.

Á tímabilinu er greinilega jákvæð þróun í kjötmati og auknum vaxtarhraða gripa. Aukið vægi Angus-gripa í ræktunarstarfinu er byrjað að koma fram og endurspeglast í meiri vaxtarhraða og betri fóðurnýtingu. Mjög spennandi tímar eru framundan með kyngreiningu á nautasæði og möguleikum á aukinni notkun á holdasæði fyrir valdar kýr. Ef það verkefni tekst vel mun það bjóða upp á aukna samvinnu mjólkurframleiðenda og þeirra sem vilja sérhæfa sig í nautaeldi.

Það er lykilatriði fyrir búgreinina að ná fram enn meiri afkomubata á næstu misserum. Til að svo megi vera þarf jákvætt samspil ýmissa þátta, svo sem afurðaverðs, ríkisstuðnings, áframhaldandi hagræðingar í rekstri búanna og síðast en ekki síst hagfelldara vaxtaumhverfi.

Skýrsluna sem um ræðir má finna hér.