Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
DNA-sýnataka vegna erfðamengisúrvals er að segja má komin í nokkuð fastar skorður og það skipulag sem lagt var upp með snemma síðasta árs hefur reynst vel. Þegar þetta er skrifað er búið að greina og lesa inn í gagnagrunn nautgriparæktarinnar niðurstöður 19.323 arfgreininga í íslenska kúastofninum. Af þessum 19.323 arfgreiningum eru 7.053 úr gripum fæddum á þessu og síðasta ári og þar af eru 5.267 úr kvígum fæddum 2022 og 1.606 úr kvígum fæddum á þessu ári. Á búum með mjólkurframleiðslu voru skráðar 10.557 kvígur ásettar til lífs á síðasta ári þannig að nú eru til arfgreiningar úr 49,9% þeirra kvígna. Það sem af er þessu ári er búið að skrá 4.128 kvígur ásettar hjá mjólkurframleiðendum og því búið að arfgreina 39% þeirra. Samkvæmt skráningum í Huppu á eftir að arfgreina 1.780 kvígusýni og því má ætla að við náum að greina 82% allra kvígna. Verkefnið miðar að því að allar íslenskar kýr verði í fyllingu tímans arfgreindar þannig að við sjáum orðið lands þó lokahnykkinn vanti upp á að ná því. Enn eru nokkur bú sem ekki hafa séð ástæðu til eða komið því í verk að panta DNA-merki og hefja þátttöku.
Arfgreindu kvígurnar, fæddar 2022 og 2023, eru á 365 búum um land allt og á hverju búi hafa verið greindar frá einni upp í sjötíu og eina kvígu.
Þau sýni sem hafa verið arfgreind eru í heildina góð. Þannig er aðeins 0,86% þeirra neðan við 0,9 í greiningarhlutfalli erfðavísa en sýni með lakara hlutfall er ekki hægt að nota, hvorki til staðfestingar ætternis né við erfðamat.
Erfðamengisúrvalið hefur nú þegar skilað okkur þeim ávinningi að nú eru í notkun naut sem eru allt niður í 21 mánaða gömul og að meðaltali eru þau 39,7 mánaða gömul, það er rúmlega þriggja ára. Það er mikil breyting frá því sem var en nautin voru jafnan nálægt 70 mánaða þegar þau komu til notkunar að lokinni afkvæmaprófun.
Um mánaðamótin janúar/febrúar s.l. kom fyrsta nautkálfahollið á Nautastöðina á Hesti sem algjörlega var valið á grunni erfðamats. Það innihélt sex nautkálfa og síðan þá hafa 11 kálfar bæst í hópinn. Á stöðinni eru 17 nautkálfar í uppeldi sem valdir voru út frá erfðamati og er þess að vænta að sæðistaka úr þeim hefjist undir lok ársins. Auk þess hefur nautastofninn á stöðinni verið grisjaður með hliðsjón af erfðamati nautanna og þar standa nú ein 29 naut sem státa af erfðamati sem er 110 eða hærra. Þar fer því glæsilegur hópur sem miklar væntingar eru bundnar við.