Að loknum sæðingum - sæðingastyrkir og skráningar

Hreinn frá Þernunesi
Hreinn frá Þernunesi

Segja má að nú hafi verið að ljúka sögulegri sauðfjársæðingavertíð. Mjög stór skref voru nú tekin í innleiðingu verndandi arfgerða og aldrei hefur megin hluti hrútakostsins áður byggst á lambhrútum. Viðtökurnar voru frábærar en í desember 2022 voru sæddar u.þ.b. 18.700 ær, samkvæmt skráningum í Fjárvís en í ár gæti endanlega tala orðið um 30 þúsund, en nú hafa verið skráðar um 27.500 sæðingar.

Styrkir vegna sæðinga
Matvælaráðuneytið lagði til fjármagn til að hvetja til notkunar á hrútum með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir. Fjárheimild til verkefnisins eru 20 miljónir króna. Í ljósi afar góðrar þátttöku í sæðingum gæti því niðurgreiðslan orðið aðeins minni á hverja kind en það sem lagt var upp með, sem var 1.030 kr á hverja sædda á með ARR hrútum (hrútar sem bera dökkgrænt flagg) og 515 kr ef sætt væri með hrútum sem bera mögulega verndandi arfgerð (hrútar sem bera ljósgrænt flagg). Það þarf þó að bætast aðeins meira við af skráningum svo framlagið fari að skerðast pr. kind.
Til þess að eiga rétt á styrknum þurfa bændur að skrá sæðingarnar í skýrsluhaldsforritið Fjárvís – annað þarf ekki að gera. Skráningum þarf að ljúka eigi síðar en mánudaginn 8. janúar, en ekki verður greitt út á skráningar sem fara fram eftir lok frestsins. Mikilvægt er að skrá sæðinguna undir „skrá sæðingar“ (ekki í gegnum fangskráninguna). Ráðuneytið mun sjá um útgreiðslu styrkjanna.

ARR í forgrunni
Í hrútaskránni voru kynntir í haust 43 hrútar fyrir utan forystuhrúta og feldfjárhrúta. Af þessum hrútum voru 60% þeirra með mögulega verndandi arfgerðir (MV) eða verndandi arfgerðir. Það var því spennandi að sjá hvernig notkun myndi dreifast á hrútana. Líkt og staðan á skráðum sæðingum í Fjárvís var 4 janúar, þá er 80% af ánum sæddar með hrútum sem bera MV eða verndandi arfgerðir og þar af 60% með ARR hrútunum. Það er því greinilegt að áhugi bænda fyrir innleiðingu verndandi arfgerða er mikill og ljóst að innleiðing á ARR genasamsætunni fer geysilega vel af stað. Því er útlit fyrir að gott úrval verði af ARR hrútum næsta haust, en ef einnig er horft til notkunar á heimahrútum með ARR má vænta að þá komi til álita yfir 7.000 ARR lambhrútar.

Hreinn vinsælastur
Vinsælasti hrútur stöðvanna þetta árið var Hreinn 23-920 frá Þernunesi. Úr honum voru pantaðir um 3.500 skammtar, sem er langt umfram framboð sæðis. Ótrúlega vel gekk þó að ná sæði úr honum, líkt og flestum lambhrútunum en útsent sæði úr Hreini voru 1.705 skammtar. Þetta er talsvert meira en náðist að senda út úr Gullmola 22-902 í fyrra, þegar hann var lambhrútur en útsent sæði úr honum þá voru 1.045 skammtar. Til samanburðar þá var vinsælasti hrútur stöðvanna fyrir ári síðan Fróði 18-880 frá Bjargi og úr honum voru sendir út 2.130 skammtar og því ljóst að sumir af lambhrútunum eru ekki langt frá fullorðnu hrútunum sem sæðisgjafar.
Nú er búið að skrá megnið af sæðingunum í Fjárvís og því er hér birtur listi yfir þá 10 hrúta sem flestar sæðingar eru skráðar á samkvæmt skráningum 4. Janúar 2024. Jafnframt kemur fram hve mikið sæði var sent út úr þessum hrútum. Ítarlegri listi verður birtur í næsta bændablaði.

 

 

/hh