Áburðaráætlanir í jólabókaflóðinu

Ýmislegt skemmtilegt lesefni stendur mönnum til boða um þetta leiti árs nú sem endranær þó ekki komist allt á topplistana. Áburðasalar eru að gefa út sínar bækur um þessar mundir þar sem hægt er að fræðast um framboð áburðar næsta vors.

Að mörgu er að hyggja þar sem úrvalið er fjölbreytt og útfærslur allnokkrar, auk þess sem áburður er stór kostnaðarliður fyrir bændur.

Þegar úrvalið er mikið er ekki síður þörf á að leggja niður fyrir sig hver afraksturinn á að vera, hvaða þættir eiga að vera ráðandi hverju sinni og þannig verði jafnvægi milli kostnaðar og væntinga. Því er mikilvægt að vanda val áburðartegunda, skipuleggja áburðarnotkun vel og taka tillit til ólíkra eiginleika, ræktunarsögu og fyrirhuguð not túna. Mikilvægt er að ná sem bestri nýtingu búfjáráburðar svo notkun á tilbúnum áburði verði markvissari og sú auðlind sem finnst í búfjáráburði nýtist vel.

Meira er betra í upplýsingum

Hægt er að meta hvað mikið þarf af hverju áburðarefni á tiltekið tún og er það gert í áburðaráætlunum. Nákvæmni slíks mats fer eftir þeim upplýsingum sem liggja fyrir og eftir því sem þær eru meiri, því betri eru forsendurnar til að ákvarða áburðarþarfirnar og þar með fæst markvissari áætlun. Best er að fyrir liggi áburðargjöf og uppskera fyrri ára sem og niðurstöður hey- og jarðvegsefnagreininga auk grunn jarðvegsgerðar. Auk þess skiptir máli að vita ræktunarsöguna, það er aldur og ástand ræktunarinnar og hvaða tegundir eru ríkjandi. Góð áburðaráætlun tekur mið af öllum fyrirliggjandi upplýsingum með það að markmiði að tryggja góðan heyfeng án þess að gengið sé á næringarefni í jarðvegi. Ef eitthvað af ofan töldum upplýsingum eru ekki til staðar er unnið út frá því sem er þekkt og hugað að því að auka söfnun upplýsinga jafnt og þétt.

Vert er að benda á að fleira þarf til en áburð ef vonir um mikla og góða uppskeru eiga að rætast. Ef við sleppum þáttum sem við ráðum ekki við eins og veðurfari þá sitja eftir mikilvæg atriði sem verða að vera í lagi eins og t.d. sýrustig og framræsla ef ræktun á að gefa af sér eins og kostur er.

Mikilvægt er að hafa í huga þá áhrifaþætti sem spila inn í góðan árangur og áburður gegni þar mikilvægu hlutverki. Markmið með áburðaráætlun eru að hámarka magn og gæði uppskerunnar, út frá kostnaði eða öðrum forsendum sem hver og einn bóndi leggur upp með.

Bændur eru hvattir til að nýta sér áburðarráðgjöf RML og aðra þá ráðgjöf sem þörf er á. Við leggjum okkur fram að vinna af fagmennsku og framsækni fyrir þig.

/okg