Heildareinkunn verður breytt í kynbótamati nautgriparæktarinnar

Gleði 360, Brúnastöðum, móðir Dans 13087, amma Afla 11010 og Polka 12099 og langamma Bessa sem er í …
Gleði 360, Brúnastöðum, móðir Dans 13087, amma Afla 11010 og Polka 12099 og langamma Bessa sem er í uppeldi á Nautastöðinni.

Fagráð í nautgriparækt ákvað á síðasta fundi sínum nú fyrr í vikunni að breyta útreikningi á heildareinkunn í samræmi við niðurstöður verkefnis um hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt. Á undanförnum misserum hefur RML unnið að útreikningum á hagrænu vægi eiginleika og hefur sú vinna verið í höndum Kára Gautasonar og Jóns Hjalta Eiríkssonar. Verkefnið sem hefur notið stuðnings þróunarsjóðs nautgriparæktarinnar, Landssambands kúabænda og Nautastöðvar BÍ, og lauk nú fyrir skömmu. Lokaskýrsla um verkefnið verður birt innan tíðar en unnið er að lokafrágangi hennar.
Fagráð ákvað að fara að þeim tillögum sem lagðar eru til í verkefninu og breyta útreikningi á heildareinkunn. Segja má að því felist einnig ákveðin breyting á ræktunarmarkmiði nautgriparæktarinnar. Sú breyting sem koma mun til framkvæmda við næstu keyrslu á kynbótamati á að auka ávinning af ræktunarstarfi nautgriparæktarinnar í formi minni framleiðslukostnaðar, sem metinn er af höfundum skýrslunnar nálægt 150 milljónum króna á ári. Það er því ljóst að verulegan ábata er að sækja í erfðaframfarir eða sem nemur um 1 krónu á hvern framleiddan lítra mjólkur.
Í breytingunni felst að vægi á afurðum verður lækkað úr 44% í 36% auk þess sem samsetningu afurðaeinkunnar verður breytt á þann veg að fituafurðir fá 47% vægi, próteinafurðir 48% og próteinhlutfall 5%. Þannig mun afurðaeinkunnin endurspegla verðhlutföll verðefnanna auk þess sem próteinhlutfallið fær 5% vægi til þess að halda því jafnháu og nú er. Vægi annarra eiginleika mun breytast lítillega en stærsta breytingin verður sú að ending mun eingöngu koma inn í heildareinkunn nauta sem hafa reiknaða endingareinkunn.
Í töflunni má sjá vægi eiginleika fyrir og eftir breytingu:

  Eldri Ný heildareinkunn 
Eiginleiki einkunn Naut Kýr
Afurðir 44% 36% 36%
Frjósemi 8% 10% 11%
Frumutala 8% 8% 9%
Júgur 8% 10% 11%
Spenar 8% 10% 13%
Mjaltir 8% 8% 10%
Skap 8% 8% 10%
Ending 8% 10%  


Þessi breyting er mjög í takt við vilja kúabænda en í könnun sem gerð var í tengslum við verkefnið kom fram vilji til þess að lækka vægi á afurðum og auka á öðrum eiginleikum.