Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður stækkar

Fyrir skemmstu var nýr hópur sauðfjárbænda tekinn inn sem þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður, sem er samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Verkefnið er að hefja sitt annað ár, en fyrstu þátttökubændurnir byrjuðu árið 2020.

Verkefnið gengur út á að bændurnir geri aðgerðaráætlun fyrir búin sín þar sem dregið er úr losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbinding aukin. Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og hafa nú 15 ný þátttökubú bæst í hópinn við þá 13 sem hófu þátttöku í fyrra.

Verkefnið er öflugt stjórntæki í loftslagsmálum landbúnaðarins, þar sem það byggir á grasrótarnálgun þar sem hver bóndi gerir sína eigin aðgerðaáætlun. Aðgerðaáætlun búsins er verkfærakista og lykill þeirra að loftslagsvænum landbúnaði. Verkefnið miðar allt að því að efla og smám saman stækka verkfærakistuna, meðal annars með fræðslu sérfræðinga í loftslags- og umhverfismálum og jafningjafræðslu.

Þeir möguleikar sem eru skoðaðir til að draga úr losun eru bætt nýting tilbúinna áburðarefna og frekari nýting lífrænna áburðarefna, möguleikar á ræktun niturbindandi jurta, minni olíunotkun, verndun jarðvegs við jarðvinnslu, endurheimt votlendis og draga úr innyflagerjun búfjár. Til aukinnar kolefnisbindingar eru skoðaðir möguleikar til uppgræðslu, endurheimt skóglendis (birkiskóga og víðikjarrs), skjólbeltaræktun og ræktun hagaskóga og ræktun timburskóga. Auk þess eru þátttakendur hvattir til að hugsa út fyrir rammann og koma með nýjar hugmyndir að loftslagsvænum aðgerðum.

Loftslagsvænn landbúnaður hentar öllum búgreinum og búgerðum, stórum eða litlum búum og ólíkum staðháttum þar sem það tekur mið af þörfum og getu hvers þátttökubús. Verkefnið er samstarfsverkefni allra þeirra sem búa á viðkomandi búi, enda verða aðgerðirnar hluti af daglegum störfum. Góður árangur er farinn að sjást strax eftir fyrsta ár verkefnisins. Ekki einungis í þeim fjölda aðgerða sem þátttakendur hafa sett sér, en á fyrsta ári verkefnisins voru sett 165 markmið, sem munu með beinum hætti skila sér í loftslagsvænni búum.

Verkefnið er hugsað til fimm ára og eru bændurnir styrktir fjárhagslega til að standa straum af kostnaði. Aðgerða- og árangurstengdar greiðslur taka svo við þegar líður á verkefnið en Loftslagsvænn landbúnaður verður fyrsta verkefnið á Íslandi þar sem árangurstengdar greiðslur verða hluti af verkefninu.

Berglind Ósk Alfreðsdóttir er verkefnastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar og fór hún nýlega í viðtal í þættinum Samfélaginu þar sem bæði var rætt um verkefnið og nýlega skýrslu RML um plastnotkun í landbúnaði. Sigurbjörn Hjaltason sem er einn þátttakenda í verkefnu fór einnig í viðtal við Samfélagið í byrjun vikunnar. Hægt er að hlusta á viðtölin í gegnum tengla hér neðar.

Á myndinni  sem fylgir má sjá staðsetningu bæjanna sem taka þátt í verkefninu. Gulu bæirnir eru þeir sem nú bætast við. 

Sjá nánar:
Viðtal við Sigurbjörn Hjaltason, á mínútu 18.30 
Viðtal við Berglindi Ósk Alfreðsdóttur, á mínútu 26:55

/okg