Mælingamenn meðal starfsmanna RML bjóða hestaeigendum nú nýja þjónustu - mælingu þeirra hrossa sem óskað er. Öll venjubundin mál sem notuð eru við hrossadóma eru tekin eða alls 11 skrokkmál auk mælinga á hófalengd og holdastigunar. Niðurstöðurnar eru vistaðar í upprunaættbókinni WorldFeng og þar aðgengilegar og sýnilegar öllum notendum. Mælingar hafa sýnt sig að hafa ótvírætt gildi, þær eru leiðbeinandi við sköpulagsdóma og sýnt hefur verið fram á tengsl margra þeirra við hæfileika og aðaleinkunn í kynbótadómi.
Þjónustan hentar vel:
- Fyrir seljendur hrossa – sem hluti söluupplýsinga og staðlaðrar lýsingar.
- Fyrir eigendur keppnishrossa sem þurfa opinbera staðfestingu á hæð á herðar (M1) vegna þátttöku í keppni, í samhengi við reglur um leyfða hófalengd.
- Fyrir eigendur hrossa sem einfaldlega vilja afla og skrá gögn um sín hross í WorldFeng, utan kynbótasýninga.
Að líkindum bjóða flest hesthús landsins góða aðstöðu til mælinga; steyptan og sléttan flöt. Önnur þjónusta ráðunautanna er og verður einnig í boði, s.s. DNA-stroksýnataka til staðfestingar ættfærslu eða staðfestingar skeiðgensarfgerðar (AA-CA-CC), mat á byggingarþáttum, eistnamæling og mat eistnaheilbrigðis. Athuga ber að þjónustumælingar hrossa koma ekki í stað – né eru þær til grundvallar við formlegan sköpulagsdóm á kynbótasýningu. Öll hross sem koma til kynbótadóms skulu mæld og metin á stað og stund.
Dæmi um þjónustumælingar og birtingu niðurstaðna í WorldFeng – utan kynbótasýninga, má m.a. sjá hjá þessum hrossum:
- IS2017187460 Áki frá Hurðarbaki
- IS2017225457 Sóla frá Hafnarfirði
Kostnaður við mælingar felst í föstu komugjaldi á hverja heimsókn eða viðkomustað, auk vinnutíma í heimsókn samkvæmt verðskrá RML.
Hrossamælingar má panta í aðalnúmeri RML: 516-5000 og/eða með því að hafa samband við einhvern eftirtalinna ráðunauta:
- Pétur Halldórsson, RML-Hvolsvelli: petur@rml.is
- Halla Eygló Sveinsdóttir, RML-Selfossi: halla@rml.is
- Friðrik Már Sigurðsson, RML-Hvammstanga: fridrik@rml.is
- Eyþór Einarsson, RML-Sauðárkróki: ee@rml.is
- Kristján Óttar Eymundsson, RML-Sauðárkróki: koe@rml.is
- Guðrún Hildur Gunnarsdóttir, RML-Akureyri: gudrunhildur@rml.is
- Linda Margrét Gunnarsdóttir, RML-Akureyri: linda@rml.is
- Steinunn Anna Halldórsdóttir, RML-Þórshöfn: sah@rml.is
/okg