Rekstrarráðgjöf í landbúnaði og rekstrarverkefni búgreina – Samstarf bænda og RML

Í þessari grein er ætlunin að gera stuttlega grein fyrir hvernig unnið er að almennri rekstrarráðgjöf í landbúnaði fyrir bændur af hálfu RML og einnig hvernig rekstrarupplýsingar úr einstökum búgreinum nýtast, bæði einstökum bændum í starfi, og eins fyrir viðkomandi búgrein í heild til að sjá betur hver þróunin er á hverjum tíma.

Fyrir síðustu aldamót fór af stað vinna við sérhæfða rekstrarráðgjöf í landbúnaði á vegum einstakra búnaðarsambanda. Með þátttöku í þessum verkefnum fengu þátttakendur niðurstöður settar þannig fram að þeir gátu séð hvernig þeir stóðu sig í einstökum rekstrarþáttum á hverjum tíma í samanburði við aðra. Í kjölfar bankahrunsins 2008 urðu slík rekstrargögn ekki síður mikilvæg til að sjá betur hvernig einstök bú stóðu rekstrarlega m.t.t. fjárskuldbindinga. Í framhaldinu var unnið að samræmdri framsetningu rekstrarlegra gagna undir forystu Bændasamtaka Íslands í samvinnu við starfsmenn einstakra búnaðarsambanda.

Stofnun RML og samræmd rekstrarráðgjöf
Í ársbyrjun 2013 hóf RML starfsemi og þar með varð til undir einum hatti alhliða ráðgjafarfyrirtæki í eigu bænda í gegnum BÍ. Eitt af þremur meginsviðum RML var Rekstrar- og nýsköpunarsvið. Á því sviði var áfram unnið að samræmingu vinnubragða m.t.t. rekstrargreininga og áætlanagerðar. Í dag eru vinnubrögð stöðluð varðandi þessa þætti og á hvaða kennitölur í rekstri er miðað við. Hins vegar eru einstakar áætlanir eins mismunandi og þær eru margar.

Mismunandi form einstakra rekstrar- og fjárfestingaáætlana fyrir bændur 

  • Einfalt stöðumat og mat á skuldaþoli núverandi rekstrar
  • Möguleg endurskipulagning á núverandi skuldastöðu
  • Framkvæmdaáætlanir, t.d. fjósbyggingar og aðrar stærri fjárfestingar. Samhliða eru oft umsóknir um fjárfestingastuðning
  • Beiðni getur einnig komið frá fólki sem vill skoða sín mál m.t.t. að kaupa jörð sem er í rekstri – og/eða vegna ættliðaskipta, mögulega vegna nýliðunarstuðnings
  • Eins m.t.t. aukningar á framleiðslu og mögulega fjölbreyttari rekstur, (ferðaþjónusta og fleira)

Einstök rekstrarverkefni eftir búgreinum
Frá stofnun RML og til dagsins í dag hefur verið unnið að þróun aðferðafræði, bæði m.t.t. framsetningar á gögnum og eins að byggja upp heildstæða bústjórnarráðgjöf fyrir einstakar búgreinar með samtengingu rekstrarlegra gagna og afurðaskýrsluhalds í hverri búgrein fyrir sig. Þessi verkefni byggja á samræmdu verklagi samkvæmt neðangreindum atriðum.

  • Verkefnin byggja á bókhaldsgögnum, ársreikningum og í einstaka tilvikum framtalsgögnum
  • Einnig framleiðslutölum; bæði magntölum varðandi mjólk og kjöt svo og gæðaflokkun mjólkur og kjöts
  • Upplýsingar úr gagnagrunnum, www. huppa.is , www.fjarvis.is , www.jord.is auk upplýsinga frá Mælaborði landbúnaðarins og www.afurd.is
  • Hvert bú fær síðan niðurstöður í formi skýrslu og ábendinga um stöðu búsins/rekstrarins í samanburði við heildarmeðaltal og eins þróun í eigin rekstri (síðustu þrjú ár)

Sauðfé
Í sauðfjárræktinni má segja að unnið hafi verið skipulega að söfnun rekstrarlegra upplýsinga allt frá árinu 2014 á vegum RML. Alls voru það 56 sauðfjárbú sem skiluðu gögnum vegna rekstrar 2014 en fjöldinn var kominn upp í 100 bú árið 2019. Alls voru tæp 190 sauðfjárbú sem skiluðu rekstrarlegum gögnum til uppgjörs árið 2022 með rekstrartölur fyrir árin 2019 til 2021. Svipaður fjöldi sauðfjárbúa mun skila gögnum vegna rekstrar 2022. Vægi þátttökubúanna í innlögðu magni kindakjöts í afurðastöðvar árið 2021 var um 28% af heild.

Kúabúin
Árið 2020 hófst sambærilegt verkefni fyrir kúabændur. Alls skiluðu það ár 90 kúabú gögnum vegna áranna 2017 til 2019, ári síðar var fjöldinn kominn upp 123 bú og á liðnu ári voru 154 kúabændur þátttakendur í þessu rekstrarverkefni og líkur eru á að um 170 kúabú verði þátttakendur í ár. Alls var hlutdeild þátttökubúanna árið 2021 í innvegnu magni mjólkur í afurðastöðvar um 38% af heildarframleiðslu mjólkur það ár.

Nautaeldisbændur
Árið 2020 hófst skipuleg söfnun rekstrarlegra upplýsinga hjá nautakjötsframleiðendum, með svipaðri aðferðafræði og kúa- og sauðfjárbændum. Alls skiluðu 20 sérhæfð nauteldisbú gögnum fyrsta árið, flest þeirra þó með annan rekstur með. Alls má reikna með um 30 búum sem skila gögnum vegna áranna 2020 til 2022 þegar uppgjöri lýkur á þessu ári. Sá fjöldi búa mun endurspegla um 20 til 25% af heildarframleiðslu nautakjöts viðkomandi ár.

Garðyrkjubændur
Árið 2021 hófst síðan sambærilegt rekstrarverkefni fyrir garðyrkjubændur. Alls skiluðu 25 framleiðendur í garðyrkju rekstrarlegum gögnum vegna áranna 2019 til 2021. Þessi bú voru mjög breytileg að samsetningu en af þeim voru 15 nær eingöngu í útimatjurtarækt, flest með kartöflur en afgangurinn í ylrækt. Hér, (í töflum 1 og 2) má sjá dæmi um úrvinnslu á einstökum þáttum fyrir 80 búa úrtak annars vegar sauðfjárbúa og hins vegar kúabúa, sömu bú öll árin. Allar tölur á verðlagi hvers árs. Hver bóndi í þessum rekstrarverkefnum fær niðurstöður fyrir sitt bú með samanburði við meðaltal hópsins á hverjum tíma og jafnframt er bent á, í samantekt, hvar styrkleikar eru í rekstri viðkomandi bús og hvar megi gera betur.

Mikilvægi rekstrarverkefnanna
Ljóst er að með því að beita ofangreindri aðferðafræði varðandi vinnslu rekstrarlegra upplýsinga frá einstökum búum eftir búgreinum – og samhliða að nýta tiltækar upplýsingar úr gagnagrunnum skýrsluhaldsins – fá þátttakendur í verkefnunum niðurstöður sem nýtast þeim í bústjórn á eigin búi og gefa jafnframt vísbendingar hvar styrkleikar liggja í rekstri og hvar megi gera betur. Ekki síst með því að hafa samanburð við síðustu ár í eigin rekstri og jafnframt að bera sig saman við stærri hóp í sömu búgrein. Með aukinni þátttöku bænda í rekstrarverkefnum eftir búgrein, fá búgreinarnar í hendur ákveðin gögn til nota í hagsmunabaráttu og til afkomuvöktunar.

Að lokum

  • Markmið sameiginlegra rekstrarverkefna eftir búgreinum er að bændur fái heildstæða greiningu á sínum rekstri, ásamt því að það verði til rekstrargrunnur til afkomuvöktunar fyrir einstakar búgreinar
  • Verkefnin eru jafnframt lykill að aukinni fagmennsku, bæði meðal bænda og stoðkerfis – skapa grunn til að bera sig saman við aðra bændur í sömu grein

 

/okg