Eldi nautgripa til kjötframleiðslu

Valkostir í nautaeldi
Munurinn á alíslenskum gripum og blendingsgripum

Íslensk naut eru bráðþroska, verða snemma kynþroska, ná hámarks vaxtarhraða snemma ef þau eru vel fóðruð. Íslensk naut hafa lélega fóðurnýtingu í samanburði við blendinga, en vaxtargeta íslenskra nautgripa getur þó verið ásættanleg ef gripirnir eru aldir á orkuríku og vel samsettu fóðri.

Blendingar eru ekki eins bráðþroska og alíslensk naut, minnsti munurinn er á Galloway blendingum og mestur á Limósín blendingum sem eru seinþroska. Borið saman við íslensk naut hafa blendingar mun betri fóðurnýtingu og vaxtarhraða en íslensk naut, sérstaklega Angus- og Limósínblendingar. Þeir skila því mun meiri framlegð til bóndans en alíslensk naut.

Valkostirnir í kjötframleiðslu eru kvígueldi, uxaeldi eða nautaeldi, hvort sem það eru alíslenskir gripir eða blendingar. Uxar og kvígur eru meðfærilegri og yfirleitt skapbetri heldur en nautin, en fóðurnýtingin er betri hjá nautunum. Ef hugsað er um sláturgæði eru kvígur og uxar lökustu kostirnir, þar sem þeir gripir eru kjötminni og feitari ásamt því að hafa lakari nýtingarhlutfall. Hinsvegar ef hugsað er um kjötgæði, þá er kvígu- og uxakjöt meyrari, safaríkari og fitusprengdari en nautakjöt.

Hvað þarf til?
Forsendur ábatasamrar kjötframleiðslu er vel verkað og hollt heimaaflað fóður, góður aðbúnaður, nægt rými og gott aðgengi að fóðri og hreinu vatni. Vaxtarrými er mjög mikilvægur þáttur sem því miður margir flaska á. Með því að tryggja lágmarksvaxtarrými fyrir hvern grip fæst betri fóðurnýting, meiri vaxtarhraði og meiri framlegð af hverjum grip en í þröngu rými. Aðstaða, mannafl og land sem til staðar er, skiptir máli og þekking á þörfum gripa (eldi) og grasa (fóðurframleiðsla). Ef allt þetta er til staðar getur verðamætaaukningin sem verður við það að breyta heyi/korni í nautakjöt verið góð, en afurðaverðið og fóðurkostnaður er þó það sem ræður mestu um stærð virðisaukans. Annað sem skiptir verulegu máli í þessu samhengi er tímalengd eldisins, en því lengur sem tekur að ala naut í sláturstærð því meira fóður kostar það á kg framleitt kjöt, og magnið sem hægt er að framleiða í stíum minnkar og minnkar.

Borgar þetta sig?
Aðstæður bænda eru misjafnar og þess vegna þarf hver og einn að reikna dæmið fyrir sig. Til dæmis er fjármagnskostnaður mjög breytilegur og þar getur hver viðbótarkróna skipt máli til að greiða hann niður, og fá þannig betri nýtingu á fjárfestingunni. Aðrir eru með vannýttar, afskrifaðar byggingar, t.d. þar sem búið er að byggja ný fjós og þar er sviðsmyndin önnur. Þá er fóðuröflunarkostnaður bænda afar breytilegur.

Leitið aðstoðar ráðunauta RML!

Fylgist með á Facebook: „Vaxtarhraði íslenskra nauta – Möðruvallatilraunin 2014-2017“ 
Efni er tekið saman úr fyrirlestrum Þórodds Sveinssonar, lektor Landbúnaðaháskóla Íslands.

Ítarefni

Blendingsrækt í nautakjötsframleiðslu (grein birt í Freyju) 

Blendingsrækt 

Eldi, aðbúnaður og vöxtur 

Eldistími, steinefnaþörf og framlegð 

Gæðaþættir nautakjötsframleiðslunnar