Betri nýting sjálfvirkrar mjaltatækni

Betri nýting sjálfvirkrar mjaltatækni  - Lykiltölur við notkun mjaltaþjóna

Við framleiðslu mjólkur þarf að hafa marga þætti í huga, enda um flókið og margslungið framleiðsluferli að ræða. Á undanförnum árum hafa margir bændur tæknivætt framleiðsluna meir en áður hefur þekkst, m.a. með því að fjárfesta í mjaltaþjóni eða sjálfvirkri mjaltatækni (SMT). Þó svo fjárfest sé í mjaltaþjóni og þurfi ekki lengur að mjólka tvisvar sinnum á dag þá má ekki gleyma þeim þáttum sem áhrif hafa á framleiðsluna og þar með afkomu búsins. Þar gildir eins og við alla mjólkurframleiðslu að reyna að ná sem mestu út úr þeirri aðstöðu sem búið hefur yfir að ráða og því brýnt að gera sér gein fyrir hvar hægt er að gera betur í framleiðsluferlinum. 

Á þeim búum sem tekin hefur verið upp SMT ætti einkum og sér í lagi að horfa á rekstrartölur búsins og nýta til þess hjálpartæki eins og rekstrargreiningu og samanburð við önnur bú með sömu tækni. Þannig er betur hægt að gera sér grein fyrir hvar munurinn á „bestu“ og „lökustu“ búunum liggur og hvar gera má betur. Ekki má heldur gleyma því að lágmörkun kostnaðar er ekki alltaf rétta leiðin. Oft getur verið hagkvæmt að eyða aðeins meiru í einhvern rekstrarlið sem þá skilar enn meiri tekjum á móti. Mjólkurgæði, fóður- og fjármagnskostnaður eru dæmi um þætti þar sem oft er hægt að bæta reksturinn með tiltölulega einföldum aðgerðum.

Ef það eru margir "tímaþjófar" í kerfinu má oft sjá:

  • Litla mjólk/dag/mjaltaþjón
  • Lítinn "hvíldartíma"
  • Lítið meðalmjólkurflæði (<1,6 kg/mín.)

Fyrir bú með SMT er mikilvægt að líta á lykiltölur eins og nýtingu mjaltaþjónsins eða –þjónanna. Aðalforsenda þess að SMT skili árangri er að tæknin virki vel og mjólki kýrnar án vandkvæða eins og raunin er í langflestum tilvikum. 

Sá vandi sem bú með SMT glíma við liggur kannski einna helst í takmarkaðri afkastagetu tækninnar. Einn mjaltaþjónn annar ekki nema takmörkuðum fjölda kúa meðan að tiltölulega auðvelt er að auka afköst t.d. hefðbundinna mjaltabása með því að mjólka fleiri kýr. Með því að nýta afkastagetuna betur eykur maður mjólkurmagnið og þar með tekjurnar án þess að kostnaðurinn stígi að sama skapi. Það er því góð þumalfingurregla að horfa á nýtingu hvers mjaltaþjóns fyrir sig og hver hámarksafkastagetan er. Lykiltalan þar er kg mjólkur á mjaltaþjón á dag. Fyrir íslenskar kýr er ekki óraunhæft að ætla að sú tala liggi á bilinu 1.200-1.400 kg á dag.

Ef eitthvað er athugavert við umferð kúnna má vænta:

  • Lítillar mjólkur/dag/mjaltaþjón
  • Mikils "hvíldartíma" (>5 tímar/dag)
  • Fárra mjalta
  • Fárra frávísana (<30/mjaltaþjón/dag)

Nokkrir þættir hafa áhrif á nýtinguna. Til þess að gera sér góða grein fyrir henni er nauðsynlegt að hafa nokkrar lykiltölur á reiðum höndum eins og fjölda mjólkandi kúa, fjölda mjalta á dag, tímafjölda án mjalta á dag og mjólkurflæðið (kg mjólkur á mínútu).

Afkastagetuna og nýtinguna má oft auka með því að skoða einstakar kýr og finna út hvaða kýr eru að eyða mestum tíma í mjaltaþjóninum. Þetta geta verið kýr sem eru lengi að mjólkast eða illa gengur að setja mjaltatækin á. Kýr sem eru lengi að mjólkast finnur maður með því að skoða mjólkurflæði einstakra kúa og bera saman við aðrar kýr í hjörðinni. Annað hvort losar maður sig við þær eða minnkar mjaltatíðnina hjá þeim þannig að þær komi sjaldnar inn til mjalta og eyði þannig minni tíma í mjaltaþjóninum. Reikna má með að mjólkurflæði hjá meðalkúnni sé í kringum 1,7 kg/mín. Dæmi eru um mjólkurflæði um og yfir 3,0 kg/mín. og jafnvel meira en hins vegar má einnig finna kýr sem mjólkast mjög hægt, með mjólkurflæði niður í 0,3 kg/mín.

Ef eitthvað er athugavert við kerfisstillingarnar má oft sjá:

  • Litla mjólk/dag/mjaltaþjón
  • Mikinn "hvíldartíma" (>5 tímar/dag)
  • Fáar mjaltir
  • Margar frávísanir (>80/mjaltaþjón/dag)

En það er ekki bara mjaltatími kúnna sem hefur áhrif á afkastagetuna og nýtinguna. Umferð kúnna um fjósið, stillingar kerfisins og fjöldi kúa sem hefur aðgang að mjaltaþjóninum hafa einnig áhrif. Ef umferð kúnna um fjósið og í mjaltir er ekki sem skyldi er ekki ólíklegt að eitthvað sé athugavert við fóðrunina. Þar er því rétti staðurinn til þess að hefja leitina að orsökunum en kúm sem eru fóðraðar í samræmi við þarfir líður betur og þær mjólka meira. Einnig getur verið að stýrð umferð henti ekki ef um það er að ræða eða þá að stýringin sé ekki rétt stillt og virki því ekki eins og til er ætlast.

Stillingar kerfisins geta einnig verið rangar og þá oftast á þann veg að kýrnar fái ekki að koma nægilega oft til mjalta. Þetta er best að sjá á fjölda frávísana frá mjöltum. Séu þær fleiri en 80 á dag er líklegt að kýrnar fái ekki að koma nægilega oft í mjaltir eða þá að þær séu of margar um hvern mjaltaþjón. Ráðið við því er einfalt – leyfa kúnum að mæta oftar til mjalta eða það sem kann að vera eilítið flóknara í framkvæmd - fækka kúnum.

Ef SMT er vannýtt má sjá:

  • Litla mjólk/dag/mjaltaþjón
  • Mikinn "hvíldartíma" (>5 tímar/dag)
  • Hátt meðalmjólkurflæði (>2,0 kg/mín.)

Í einhverjum tilvikum kann mjaltaþjónninn eða þjónarnir að vera vannýttir. Þetta á nánast eingöngu við um þau bú sem eru með færri kýr en tæknin annar. Gera má ráð fyrir að hver mjaltaþjónn anni á bilinu 55-60 mjólkandi kúm með góðu móti. Séu kýrnar færri er aðeins um eitt að ræða vilji maður nýta tæknina betur – fjölga kúnum ef það hentar aðstæðum á viðkomandi búi.


En við hvað er átt þegar talað er um mjaltatíma og mjólkurflæði og er munur á hvernig mismunandi tegundir mjaltaþjóna reikna þessi gildi?

Þegar rætt er um mjaltatíma er átt við tímann frá því þegar kýrin byrjar að selja (mjólkurflæði hefst) og þar til síðasta spenahylkið hefur verið tekið af.

Mjólkurflæði er oftast reiknað með annarri hvorri eftirtalinna aðferða:
Annars vegar sem heildarmagn mjólkur í viðkomandi mjöltum deilt með mjaltatímanum einum. Þar er þvottatíminn og sá tími sem tekur þjóninn að setja spenahylkin á ekki tekinn með og er þetta því í reynd mjög góður mælikvarði á hversu hratt kýrin mjólkast, þ.e. hve vel hún selur. Þarna er ekki óalgengt að sjá gildi upp á 1,0 kg/mín. til 2,5 kg/mín. Á þennan hátt reiknar t.d. Lely mjaltaþjónnin mjólkurflæði.
Hins vegar er um að ræða að mjólkurflæðið er reiknað sem heildarmagn mjólkur í viðkomandi mjöltum deilt með heimsóknartímanum, þ.e. mjaltatímanum að viðbættum þvottatíma og þeim tíma sem tekur að setja spenahylkin á og taka þau af. Með þessari aðferð er í reynd verið að taka tillit til fleira en eingöngu hversu hratt kýrin mjólkast. T.d. er þess að vænta að óþekkar kýr og kýr með utarlega setta spena, sem mjaltaþjónninn á erfitt með að finna, fái lægri gildi þarna þó svo að þær mjólkist hratt eftir að mjólkurflæði hefst. Þarna eru algeng gildi upp á 0,2 kg/mín. til 2,0 kg/mín. DeLaval gefur mjólkurflæði upp á þennan hátt og mætti kalla þetta hugtak mjaltaflæði til aðgreiningar frá raunverulegu mjólkurflæði.

Það er því að mörgu að hyggja þó svo ekki þurfi að mjólka tvisvar á dag með SMT. Með góðu eftirliti og –fylgni má ná miklu út úr þessari tækni, bæta reksturinn og þar með afkomu búsins. Lykilatriðið þar er að fylgjast vel með og bregðast rétt og fljótt við því sem úrskeiðis fer.


Guðmundur Jóhannesson