Kostnaður við fóðrun og hagagöngu hrossa veturinn 2007-2008

Hugleiðingar um fóðrunarkostnað og hagagöngu hrossa veturinn 2007-2008.  


Árinu má skipta í tvö tímabil

Fóðrunartímabil: Janúar – Maí: 5 mánuðir.

Hagaganga: Júní – Des: 7 mánuðir. Fer þó eftir aðstæðum á hverjum stað, ásamt árferði og snjóalögum. Víða byrjar heygjöf í byrjun desember og getur fóðrun því staðið í allt að 6 mánuði. Á snjóléttari svæðum og í góðu árferði getur fóðrunartímabil verið mun styttra.


Fóðrunartímabil
Bóndi þarf að standa klár á 600 Fe heys pr. hross í hans umsjá. Svarar til um 850 kg þurrefnis (áborið, mikið sprottið, vel verkað).

Átgeta hests er um 5-5,5 kg þurrefnis pr. dag. Það svarar til um 165 kg. þe. pr. mánuð. Meðalrúlla (120 cm) gæti innihaldið á bilinu 230-250 kg. þurrefnis.

Þetta þýðir að hestur þarf um 2/3 af rúllu á mánuði.

Ef við gefum okkur að markaðsverð á hestaheyi haustið 2007 hafið verið 3500 kr. pr. rúllu. Þá er fóðurkostnaður um 2500 kr. á mánuði.

Við bætist vinna við að gefa heyið og líta eftir gripunum. Við gefum okkur að bóndi hafi umsjón með 15 hrossum og gefi þeim 2svar í viku og að það taki 1 klst. í hvort skipti.  Það gerir 8 klst í mánuði eða 1/2 klst á hest. Við gefum okkur að vélavinna kosti 7000 kr./klst  Það þýðir að vélavinna og eftirlit pr. hest á mánuði er kr. 3.500.

Kostnaður við vetrarfóðrun gæti því verið um 6.000 þúsund á mánuði (án vsk) miðað við veturinn 07-08. Ekki er gert ráð fyrir kostnaði og vinnu við ormalyfsgjöf og hófhirðu.

 

Hagaganga
Hektari af góðu beitiland gæti kostað á bilinu 2-300 þúsund. Hér ræður staðsetning miklu og land á eftirsóttum stað kostar mun meira. Ekki er óraunhæft að ætla beina landleigu um 3-5% af markaðsverði. Þannig reiknast ársleiga á hvern hektara um 10 þúsund kr. Ef við gefum okkur að um 7 mánaða tímabil væri að ræða þá þyrfti hesturinn um 1100 kg þe. Landið væri frekar frjósamt og gæfi af sér um 1500 kg / þe á tímabilinu. Hver hestur þyrfti þá um 0,7 hektara.

Af því leiðir 10.000 * 0,7 = 7.000 kr. eða 7000 / 7  = 1.000 kr. á mánuði pr. hest.

Þá er eftir að reikna með vinnu við umsjón, viðhaldi girðinga oþh. sé um þá þjónustu að ræða. Hér er sem fyrr um mjög mikinn breytileika að ræða og aðstæður geta verið mjög svo mismunandi. Við gefum okkur að bóndi líti yfir hólfið flesta daga, ásamt því að sjá um viðhald girðinga. Ef við gefum okkur að í þetta fari um 20 mín á dag að meðaltali og að tímagjald sé 2.500 kr.  erum við að tala um ca. 1500 kr. pr hest á mánuði (miðað við 15 hesta í hólfi).

Kostnaður við hagagöngu með umsjón gæti því verið um 2500 kr. á mánuði.

Út frá gefnum forsendum má ætla að kostnaður við fóðrun og hagagöngu á hesti gæti verið á bilinu 40 – 60 þúsund á ársgrundvelli.

Fyrir liggur að framleiðslukostnaður heys hefur hækkað verulega frá fyrra ári (Olía, áburður, plast, fjármagnskostn. ofl.). Markaðsverð heys mun væntanlega hækka einnig en ekki víst að það verði í takt við hækkun á framleiðslukostnaði. Gott útlit er með uppskeru sumarsins en á móti kemur að minni fyrningar sl. vor gera það væntanlega að verkum að menn verða ekki eins áfjáðir í að selja hey undir kostnaðarverði eins og oft hefur verið. Ekki er óvarlegt að ætla að fóðrun og umsjón þurfi að hækka um 20-30% á komandi vetri til að halda í við kostnaðarhækkanir.

Þessar hugleiðingar byggja á gögnum frá Pétri Halldórssyni ráðunaut hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, útreikningum Búgarðs á fóðuröflunarkostnaði, ásamt eigin reynslu af hrossahaldi.

Búgarði 3. september 2008
Vignir Sigurðsson