Tarfurinn-kynbótaráðgjöf

Grundvöllur að því að ná árangri á öllum sviðum er að setja sér markmið og í kjölfarið áætlun um það hvernig markmiðunum skuli náð. Þetta á við í búfjárrækt eins og öðru. Hérlendis er búfjárrækt stunduð á félagslegum grunni þar sem allir gripir stofnsins eru í pottinum og stefnt er að skilgreindum ræktunarmarkmiðum fyrir hvert búfjárkyn fyrir sig. Hverjum bónda er síðan í sjálfsvald sett hvort og þá hvaða áherslur hann setur sérstaklega fyrir sitt bú.

Nautgriparækt er að því leyti frábrugðin sauðfjárrækt og hrossarækt að ekki er gert ráð fyrir að bændur noti eigin naut til kynbóta heima á búunum heldur að karlkyns kynbótagripir séu valdir sameiginlegir fyrir stofninn í heild sinni. Að baki þessu liggja margvíslegar ástæður sem ekki verða allar tíundaðar hér en í grunnin má segja að hér miði menn að því að ná mestu mögulegu framförum í stofninum í heild sinni. Þrátt fyrir að kynbótanautin séu valin sameiginlega fyrir stofninn í heild sinni eru ákveðnir möguleikar á að stýra ræktunarmálum hverrar hjarðar fyrir sig, t.d. með kynbótaáætlun.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins býður upp á kynbótaráðgjöf fyrir kúabændur sem kallast TARFURINN. TARFURINN fellur í sér:

  • Greiningu á kynbótagildi hjarðar.
  • Mat á byggingareiginleikum.
  • Úttekt á frjósemisstöðu búsins.
  • Pörunaráætlun (nautaval).

Viðkomandi bóndi getur sett sér markmið og lagt línur með hvaða eiginleika hann vill leggja áherslu á. Í framhaldinu er unnin greining á hjörðinni og fundið hvar sterkir og veikir þættir liggja auk þess sem frjósemisstaða búsins er skoðuð. Að lokum er svo unnin pörunaráætlun sem inniheldur tillögur að nautavali fyrir hvern og einn grip að teknu tilliti kosta og galla þeirra. Pörunaráætlunin er svo uppfærð að lokinni næstu keyrslu á kynbótamati.
Að ári liðnu er svo leikurinn endurtekinn og metið hversu vel miðar.
Kynbótaáætlun getur verið öflugt hjálpartæki í búrekstrinum til þess að ná árangri til framtíðar.

Ávinningur bónda

  • Bóndi kaupir vinnu af ráðunautum með afslætti (lægra tímagjald).
  • Innifalin er vinna/ráðgjöf sem ætti að skila sér í bættum búrekstri og afurðum.
  • Bóndi fær mat á stöðu hjarðarinnar sem auðveldar markmiðssetningu við pörun gripa.
  • Bóndi fær pörunaráætlun sem gerir allt kynbótastarf á búinu markvissara.
  • Bóndi fær mat á frjósemisstöðu búisins  og leiðbeiningar varðandi þær niðurstöður.
Innifaldir þættir - nánari lýsing
 
  • Greining á kynbótagildi hjarðar: Í TARFINUM er innifalin greining á kynbótagildi hjarðarinnar og metið hvar sterkir og veikir þættir liggja.
  • Mat á byggingareiginleikum:  Byggingareiginleikar kúnna eru skoðaðir og greint hvar veikir og sterkir þættir í byggingu gripanna liggja.
  • Úttekt á frjósemisstöðu. Gerð er úttekt á frjósemisstöðu búsins s.l. 12 mánuði sundurgreint eftir kvígum, 1. kálfs kvígum og eldri kúm. Skoðuð eru sérstaklega atriði eins og FS-tala, fjöldi sæðinga á kú, ekki uppbeiðsli við 1. sæðingu, bil frá burði til 1. sæðingar, bil milli sæðinga, bil frá 1. til síðustu sæðingar o.fl.
  • Pörunaráætlun: Gerð er tillaga að vali nauta þar sem tekið er tillit til óska/markmiða bónda, kynbótagildis hjarðar, skyldleika og byggingareiginleika. Horft er til þess að bæta þá þætti sem veikir eru í hjörðinni með markvissu vali sæðinganauta. 

Vanti þig kynbótaráðgjöf þá notaðu pöntunarformið (sjá hnapp hér fyrir neðan) eða hafðu samband við okkur.